138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má svo sem velta því fyrir sér hvað frekari orðaskipti um þetta stórmál hafa upp á sig. Hv. þingmaður var nú komin úr lýðskrums- yfir í landflóttagírinn í svari sínu hérna áðan. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það merkilegt eiginlega í hvert sinn, hver sem í hlut á, þegar ræðumenn á Alþingi Íslendinga finna sig alveg sérstaklega í því að útmála hættuna á því að hér bresti á stórfelldur landflótti, af hvaða ástæðum sem það ætti svo sem að vera. Ég held að það sé nú frekar okkar hlutverk hér almennt talað að reyna að tala kjark í þjóðina og vera ekki að æsa upp hræðsluáróður um það. Sem betur fer hafa heimsendaspárnar allar, sem voru margar uppi um síðustu áramót og svo sem ósköp eðlilegar vegna þeirra ógnaratburða sem orðið höfðu, ekki gengið eftir. Því var spáð að atvinnuleysi gæti orðið hér allt að 20%, það var gert í kosningabaráttunni í aðdraganda alþingiskosninga. Það var talað um stórfelldan landflótta svo tugum þúsunda næmi. Hvorugt hefur gengið eftir og vantar sem betur fer mikið upp á. Nú er spáð að atvinnuleysi verði að meðaltali undir 8% á árinu 2009. Það er lægra en á Írlandi. Það er lægra en í Svíþjóð. Það er lægra en í Finnlandi. Það er miklu lægra en í Eistlandi og Lettlandi og víðar þar sem erfiðleikarnir eru mestir og það er lægra en að meðaltali í Evrópu. Við skulum því aðeins gæta okkar í hvaða veruleika við erum stödd. Af hverju gleðjumst við nú ekki, þingmenn, og erum í góðu skapi yfir því að vissir hlutir hafa gengið heldur betur en við óttuðumst síðastliðinn vetur og fram á vor? Samdráttur landsframleiðslu er minni. Hann stefnir núna sömuleiðis undir 8%. Það hefur enginn stórfelldur landflótti orðið. Við skulum ekki tala hér eins og við eigum að búa okkur undir hann fyrirfram. Auðvitað er okkur öllum ljós sá möguleiki að þetta hefur áhrif á búferlaflutninga og það er upp að vissu marki ekkert óeðlilegt við það á nokkurn hátt (Forseti hringir.) ef fólk eygir tækifæri annars staðar og fær góða vinnu í nágrannalöndunum þar (Forseti hringir.) sem það stundar sitt nám frekar en að vera á atvinnuleysisbótum hér heima. (Gripið fram í.)