138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar talar um að fólk hér virðist vera ófært um að sjá ljósið. Þess vegna mundi ég kannski vilja rifja aðeins upp minnihlutaálit hjá efnahags- og skattanefnd sem hv. þingmaður skrifaði undir. Ég verð að segja að það er kannski sjaldan sem maður hefur séð einhvern rembast jafnmikið við að sjá ljósið og í því nefndaráliti. Þar er talað um að hrein staða þjóðarbúsins geti numið á bilinu mínus 54 til mínus 71% af vergri landsframleiðslu, sem fulltrúar Seðlabankans bentu á að væri betri staða en á árunum fyrir hrun. Þetta er náttúrlega algjör brandari og dæmi um það þegar menn eru að reyna að sjá hrunið, staðan fyrir hrun var þess háttar að það varð hrun á Íslandi. Svo er talað hérna um að viðskiptajöfnuður sem við horfum fram á til að borga allar þessar gífurlegu skuldir sem hv. þingmaður vill að við tökum á okkur, stafi fyrst og fremst af samdrætti í innflutningi sem segir okkur að það verða ekki neinir til að kaupa þessar vörur.

Ég vil hins vegar taka mjög skýrt fram að ég og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins erum svo sannarlega ekki að tala gegn því að laun þingmanna og æðstu embættismanna hækki ekki eða að þau lækki jafnvel í samræmi við þær breytingar sem verða á almennum vinnumarkaði, en það tel ég vera hlutverk kjararáðs. Ef við viljum sjálf fara að taka ákvarðanir um launakjör æðstu embættismanna og jafnvel ýmissa stétta sem fá borguð laun í gegnum framkvæmdarvaldið, eigum við náttúrlega bara að taka skrefið til fulls og leggja niður kjararáð. Ég held að það sé langeinfaldast í staðinn fyrir að vera með tvöfalt kerfi eins og við erum komin með núna. Þess vegna vildi ég gjarnan spyrja hv. þingmann hvort ríkisstjórnin sé að leggja það til að kjararáð verði lagt niður og við förum bara sjálf að taka ákvarðanir um launakjör þeirra sem núna falla (Forseti hringir.) undir kjararáð og gætum bara þess vegna bætt við ýmsum öðrum stéttum, t.d. eins og læknum, skrifstofufólki í ráðuneytunum og fleirum.