138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir hans orð um það að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að kjararáð fái að skila inn áliti sínu um þetta frumvarp eða að fulltrúar þaðan verði kallaðir á fund efnahags- og skattanefndar. Þá er það á hreinu og þarf ég ekki að hafa meiri áhyggjur af því, þá fær kjararáð sjálft að sjálfsögðu að tala í þessu máli.

Mig langar til að vitna hér í dóm á ný, virðulegi forseti, dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-1939/2006, þar segir:

„Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 er rakið að áskilnaður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um óháða dómstóla feli í sér að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og „ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins“. Er skírskotað til þess að „kjör sem dómendum eru tryggð“ séu einn af efnisþáttum í mati á hvort dómstólarnir teljist sjálfstæðir þannig að fullnægt sé kröfum stjórnarskrárinnar.“

Ég vind mér beint í efnið. Finnst hv. þingmanni að verið sé að hvetja til sjálfstæðis dómstóla þar sem löggjafinn sjálfur er búinn að binda hendur kjararáðs til hækkunar launum hjá dómurum allt til ársloka 2010, sérstaklega í ljósi þess sem gerðist fyrir ári síðan og við þurfum einstaklega mikið á sterkum vel stæðum og sjálfstæðum dómstólum að halda nú um mundir?