138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að í kreppum er oft það fyrsta sem gefur eftir mannréttindi og grundvallaratriði stjórnskipunar. Við erum með þrískiptingu valdsins til þess að vernda borgarann fyrir ofurvaldi ríkisins og hér grípur einn aðili í þrískiptingunni, þ.e. löggjafarvaldið, inn í annan sem er dómsvaldið. Ég hef af því áhyggjur, frú forseti.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að gæta þess mjög vel, sérstaklega núna þegar dómarar standa frammi fyrir óskaplega þungum, stórum og umfangsmiklum málum sem þeir þurfa að taka afstöðu til. Þar skiptir máli að upphæðirnar eru milljarðar, tugir milljarða, hundruð milljarða, þúsundir milljarða. Undir liggja ekki bara íslenskur réttur, heldur alþjóðlegur réttur, breskur réttur, hollenskur réttur o.s.frv. Öllu þessu þurfa dómarar að standa frammi fyrir og á sama tíma er verið að gefa þeim merki með þessu frumvarpi um að það eigi að lækka launin þeirra. Það er viðbúið að þeir fari hinum megin við borðið og sæki málin fyrir þá sem vilja gegn íslenska ríkinu.