138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[16:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega mjög áhugaverð umræða. Ég er eiginlega sammála því að þessi gífurlegu ofurlaun bjuggu hvorki til ábyrg né mjög vönduð vinnubrögð. Ég held hins vegar að það sé kannski ekki til bóta heldur að fara úr ökkla í eyra. Ég held að það sé ekki til bóta að fara hina leiðina og segja að allir eigi að vera með sömu laun. Ég er ekki viss um það og alveg sérstaklega núna þegar við lítum á dómskerfið, þegar dómarar þurfa að fara að fjalla um gífurlega erfið og þung mál. Ég minni bara á Icesave-málið í umræðum hér í þinginu — mér finnst skorta á það að menn skilji hvað um er að ræða, mér finnst það, ég skil það oft ekki sjálfur. Þannig að þetta er spurningin um að fá mjög hæft fólk. Dómari sem stendur t.d. frammi fyrir því að geta kannski verið með ekki 70 þús. kr. hærri laun á mánuði heldur 70 þús. kr. á klukkutímann hinum megin, hann fer kannski að hugsa sinn gang, ég veit það ekki.

Varðandi það að fólk bjóði sig ekki fram til Alþingis vegna launanna, það held ég sé alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra, en það er líka fjöldi manns sem býður sig ekki fram vegna þess að launin eru lág. Þeim bara dettur það ekki í hug. Maður sem er t.d. með læknisfræðinám og há námslán og allt það á bakinu hefur varla efni á því að fara á þing. Að því leyti má segja að þeir sem fara á þing gera það ekki vegna launanna en það kannski vantar þá sem hefðu farið á þing ef launin hefðu verið betri.