138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[16:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er nú ekki verið að fara úr ökkla í eyra, hér er eingöngu verið að tryggja að það sama verði við lýði á árinu 2010, sem er á þessu ári, að þessir hæst launuðu embættismenn, alþingismenn, ráðherrar, dómarar, ráðuneytisstjórar og aðrir, sem nú heyra undir kjararáð, taki vissar byrðar á sig og deili kjörum með þjóð sinni með þessum hætti, leggi sitt af mörkum í formi lægri launa á ákveðnu árabili. Það er að sjálfsögðu rétt að dómarar þurfa að vera fjárhagslega sjálfstæðir og búa við öryggi í starfi. Sérstaklega mikilvægt er að þeir búi við algjört starfsöryggi og eftir að þeir hafa einu sinni verið skipaðir sé ekki hægt að hrófla við þeim, þannig að menn geti ekkert farið aftan að þeim þó þeir sætu dóma sem mönnum líkar ekki vel. Sama gegnir auðvitað um þingmenn að mörgu leyti.

Ég hef oft staðið í því á láglaunavinnustöðum og annars staðar að verja laun þingmanna sem ýmsum þykja há og hér í gegnum tíðina eðlilega. Lægst launaða verkafólkinu í landinu þykir þingfararkaup hátt. Ég hef fært fram þau rök að það sé mikilvægt að þingmenn búi við trygga afkomu, séu fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir um afkomu sína, enda hef ég lengi barist fyrir því að það sé sett í lög að þingmenn gegni engum öðrum launuðum störfum. Það er langbesta fyrirkomulagið. Ég man þá tíma þegar þingmenn töldust það illa launaðir, a.m.k. að eigin áliti, að þeir snöpuðu alla bitlinga sem buðust og sátu í bankaráðum og stjórnum út um dal og hól. Það var ömurlegt fyrirkomulag og sem betur fer að mestu leyti aflagt.

Það má því færa fyrir því rök að það sé mikilvægt að menn búi við trygga afkomu og hún sé það góð að þeir séu fjárhagslega sjálfstæðir og komist vel af og engar freistingar í gangi í þeim efnum. En hitt, að þeir þurfi að hafa einhver himinhá laun, og það sé það fólk sem sækir í slíkt sérstaklega, sem við eigum að laða hingað inn á þing, því mótmæli ég.