138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[16:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Nú er það svo, frú forseti, að Kjaradómur á að taka mið af launaþróun í landinu. Mér segir svo hugur að laun margra hafi lækkað. Mér finnst því ekki ólíklegt að hann hefði sjálfkrafa lækkað laun eða látið þau standa í stað, því að hann er búinn að lækka þau nú þegar og kannski þykir honum nóg að gert. En það sem er verst við þetta er það að það er verið að taka hann úr sambandi. Það er verið að taka úr sambandi það tæki sem Alþingi skóp til þess að mæla þessi laun, til þess að Alþingi þyrfti ekki sjálft að ákveða sín laun. Það var búinn til dómstóll eða óháð nefnd sem átti að taka afstöðu til launanna og hér er verið að taka hana úr sambandi. (VigH: Rétt) Það er það sem ég held að sé skaðlegast við þetta. Kannski munu margir dómarar og aðrir sem eru, hvað ég á að segja, þolendur þessa, taka það illa upp að svona sé að verki staðið.

Ég hugsa að Kjaradómur hefði komist að þeirri niðurstöðu að engin ástæða sé til að hækka laun við næstu úrskurði vegna þess að laun hafa almennt verið að lækka í þjóðfélaginu. Nú er verið að segja að ekki megi breyta neinu og dómarar og aðrir skuli sæta þeim launum sem þeir hafa með skipun að ofan, frá Alþingi eða frá framkvæmdarvaldinu. Það kann hugsanlega að valda því að einhver fer hinum megin við borðið, sem ég vona að gerist nú ekki, því að við þurfum á öllu okkar besta fólki að halda í að dæma þau gífurlega stóru mál sem standa fyrir dyrum. Við þurfum á öllu fólki að halda inni á Alþingi til að ráða við þau óskaplega flóknu og stóru mál sem við þurfum að taka afstöðu til.