138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar framsögu. Það er margt rétt sem kom fram í máli hennar. Að vísu er ekki rétt að lyfjakostnaður hafi lækkað út af samræmdum aðgerðum hjá hinu opinbera. Þvert á móti var þetta starf unnið í mjög langan tíma sem miðaði að því að lækka lyfjakostnaðinn og það tókst. Ég hugsa að stærsta einstaka aðgerðin sem lækkaði lyfjakostnað hafi verið afnám afslátta á heildsölustigi. Það var mjög umdeild aðgerð og voru hagsmunaaðilar afskaplega ósáttir við hana en það sem þá var lagt til grundvallar var reynsla annarra þjóða af sams konar aðgerðum. Þrátt fyrir að það hljómi kannski sérkennilega að menn lækki afslætti til að það muni lækka verð, ég fer nú betur yfir það í ræðu minni, þá er það nú þannig.

Það er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðherra að það að ganga alla leið, sem hafði það markmið að lækka verð á lyfjum, tengdist því að breyta kostnaðarþátttöku í kerfinu. Ástæðan fyrir því að menn vildu láta þetta hanga saman var til þess að menn vildu ekki að einstaka sjúklingahópar lentu í hækkun á einstaka lyfjum. Þess vegna vildu menn fara heildstætt í kostnaðarþátttökukerfið og það hefur verið krafa, held ég, allra sjúklingasamtaka um mjög langa tíð að gera það. Kerfið eins og það er í dag er mjög gloppótt og undir hælinn lagt hvar kostnaður lendir í heilbrigðiskerfinu, því miður.

Það er rétt að fyrrverandi ráðherra stöðvaði þá vinnu sem var unnin af hv. þm. Pétri Blöndal og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, sem var varaformaður, en nefndin var komin ansi langt með þá vinnu. Ætlar hæstv. ráðherra að hætta við að breyta kostnaðarþátttöku í kerfinu? Er það algjörlega út af borðinu?