138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki svarað skýrar en svo að ég tel nauðsynlegt að kannað verði til hlítar hvernig nýta megi öll þau gögn og þá miklu vinnu sem nefndin og starfsmenn hennar hafa lagt fram. Ég var sjálf þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að skipta þessu upp í lyfjakostnað annars vegar og lækniskostnað hins vegar, þetta var orðið ansi yfirgripsmikið og umfangsmikið verkefni, en ég get ekki svarað öðru til en því sem ég sagði að ég tel eðlilegt að kanna mjög vel hvernig nýta má þessa vinnu til hagsbóta fyrir þá sem greiða hlutdeild í heilbrigðiskostnaði. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að ekki er alltaf mikið réttlæti í því hvernig það dreifist.

Hvað varðar það frumvarp sem við ræðum hér, þá verð ég nú að leyfa mér að segja að við getum svona í hálfkæringi kallað þetta góðkunningja þingmanna. Við höfum farið þrisvar sinnum yfir þetta mál og allir hafa verið sammála um að fresta gildistökunni. Hér er nokkur eðlismunur á því að hér er einfaldlega lagt til að úr lögunum verði fellt ákvæði um að banna afslætti yfir borðið. Það er í rauninni eðlisbreyting frá því sem áður hefur verið og ég vænti þess að við getum líka verið sammála um að kominn sé tími til að stíga það skref. Allir hafa verið sammála um að fresta þessari gildistöku, við ættum ekki að banna þetta, það hefur sýnt sig að árangur hefur náðst án þess að þessir afslættir væru bannaðir yfir borðið og þess vegna, frú forseti, leyfi ég mér að vænta góðra undirtekta í hv. heilbrigðisnefnd og hjá þingheimi öllum með þetta litla mál.