138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra hefur þetta mál oft komið til þingsins og rétt að það hefur verið á þann veg að þingheimur hefur verið sammála tillögu ráðherra en ég lagði það nú til að þessum hlutum yrði frestað þangað til nýtt kostnaðarþátttökukerfi tæki gildi. En einhver gæti þá spurt: Bíddu, af hverju var þetta inni? Það er afskaplega mikilvægt að menn hafi forsöguna í huga, vegna þess að þær ákvarðanir sem við tökum hér geta haft gríðarleg áhrif á þróun lyfjakostnaðar í landinu. Það er ekki langt síðan lyfjakostnaður var nokkurn veginn hæstur á byggðu bóli á Íslandi. Það kemur margt til. Við erum föst í Evróputilskipunum hvað þetta varðar, sem gerir það að verkum að hér er mikil haftaverslun, þvert á það sem gerist almennt á Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar vara er komin inn á markað einhvers lands á Evrópska efnahagssvæðinu, þá er hún komin inn á alla markaði, en því er ekki þannig fyrir komið hjá lyfjunum. Ef einhver ætlar að flytja inn lyf til Evrópska efnahagssvæðisins, segjum til Bretlands, og gerir það og ákveður í kjölfarið að flytja lyfið inn til Íslands, þá þarf hann að fara í gegnum nákvæmlega sama fyrirkomulag á Íslandi eins og á Bretlandi. Þetta eru auðvitað mjög slæmar fréttir fyrir alla en sérstaklega fyrir litla markaði eins og íslenska markaðinn og gerir það að verkum að það er dýrt að koma hér inn á markaðinn og það leiðir af sér mjög hátt vöruverð. Þess vegna fór ég þá leið að reyna að ná samstarfi við Norðurlöndin, sem m.a. skilaði sér í því að núna fá mörg þau lyf sem fá markaðsleyfi í Svíþjóð sjálfkrafa markaðsleyfi á Íslandi, nema ef innflytjendurnir vilji það bara alls ekki. Það er svolítið athyglisvert að sumir innflytjendur vilja það ekki og það hlýtur í rauninni að kalla á spurningar sem vert væri að fá svör við í þessu samhengi. Ef við ætlum að halda lyfjakostnaði hér niðri, þá þurfa menn að hafa öll tæki tiltæk og vinna þetta jafnt og þétt. Það var svo sannarlega gert, sem skilaði sér í því að lyfjakostnaður lækkaði gríðarlega í góðærinu. Við fórum í margt, en ég ætla ekki að fara í gegnum allt hér, aðeins afslættina. Af hverju í ósköpunum voru menn að eiga við afslættina?

Stóra einstaka málið var það að afslættir á heildsölustiginu héldu verðinu mjög uppi. Af hverju var það? Það gerðist þannig að á smásölumarkaðnum erum við með tvö fyrirtæki, sem eru með 80% af markaðnum. Samkeppniseftirlitið hefur oft lýst því yfir að saman séu þau með algjörlega markaðsráðandi stöðu. Það gerðist bara þannig í praxís, að því er virðist, að þegar menn vildu koma lyfjum á markað og ætluðu að fara í gegnum stóru aðilana, þá þurftu þeir alltaf að veita þeim meiri afslátt en smærri aðilunum. Með öðrum orðum, sá sem ætlaði að koma lyfi á markað, þurfti að veita stóru keðjunum meiri afslátt en öðrum og sá afsláttur skilaði sér ekki til neytenda. Með því að hafa verðin í rauninni uppi á borðinu þurftu þeir sem seldu verslunarkeðjunum lyfin að keppa í verðlagi en ekki afslætti, sem hvergi sést og er illa skilgreindur, og það gerði það að verkum að verðsamkeppni komst á og lækkaði lyfjaverðið. Það sem er líka flókið við lyfjaverðið er smásalan, þ.e. sala yfir borðið, því þar eru menn með alls kyns afslætti sem gera markaðinn ógagnsæjan og það heldur verði frekar uppi en að halda því niðri. Það er því svolítið stór ákvörðun ef við ætlum algjörlega að hverfa frá þessu.

Það er ástæða fyrir áhyggjum mínum, ég hef skoðað ansi vel hvernig þetta hefur verið í gegnum tíðina, ef menn slaka eitthvað á hvað þessa hluti varðar og eru ekki mjög einbeittir í því að fylgja málum eftir þá er hætt við að þeir sofni og dagi uppi. Nú höfum við sett 18 millj. kr. og mikla vinnu ýmissa aðila í nýtt kostnaðarþátttökukerfi, sem menn voru sammála um að væri skynsamlegt að lægi til grundvallar þegar menn breyttu þessu og afnámu afslættina hjá smásölunum, þannig að smásalarnir þyrftu bara að keppa í verði en ekki í afslætti.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að nýta ætti þessa vinnu, en það kom ekki fram skýr stefna hjá hæstv. ráðherra um að setja vinnuna af stað þannig að menn ætli sér einhvern tíma til að ná niðurstöðu. Kostnaðarþátttökukerfið er mikilvægt af mörgum ástæðum. Ein ástæðan er sú að núna getur langveikt fólk lent í því að þó svo að það eigi ekki að greiða fyrir lyf, þá á það bara við um þau lyf sem það fær, en fólk sem er langveikt þarf á alls kyns lyfjum að halda og sumt er bara ekki inni í kostnaðarþátttökukerfinu hjá þeim, þ.e. það sem þau fá ókeypis, bara svo dæmi sé tekið. Það kemur í ljós þegar menn skoða þetta að ýmsir langveikir eru með ansi háan heilbrigðisþjónustukostnað. Það er eðlilegt og skynsamlegt að dreifa því þannig að þessir aðilar greiði minna og þessi kostnaður færist annað. Það er líka mjög skynsamlegt að hafa kerfið gegnsætt og að það liggi alveg fyrir hvaða reglur eru í gildi, þannig að menn viti þá og geti stýrt þessum niðurgreiðslum sem best.

Það er mjög slæmt og alveg á skjön við allt sem hefur verið lagt upp með t.d. af sjúklingasamtökum, sem hafa öll, að því er ég veit til, lagt mikla áherslu á það að farið verði í þetta kostnaðarþátttökukerfi. Menn hafa bent á frændur vora á Norðurlöndunum, sem hafa haft slíkt kerfi um ansi langa tíð og þangað voru fyrirmyndirnar sóttar. Þetta kallar hins vegar á það að menn þurfa að taka ákvarðanir. Auðvitað getur það verið erfitt, en það er til þess vinnandi.

Við getum eiginlega ekki litið á þetta mál öðruvísi en í þessu stóra samhengi. Ef menn ætla að gefa eftir í þeirri vinnu sem hefur gengið út á það að lækka lyfjakostnað í landinu, þá mun það koma fram bæði í auknum ríkisútgjöldum og kostnaði hjá sjúklingum. Nú deilir enginn um það og gríðarlegur árangur hefur náðst í að lækka lyfjaverð. Þetta byrjaði ekki í gær, meira að segja í miðju mesta góðærinu var lyfjakostnaður að lækka og við vorum að koma hér fram með ódýr samheitalyf sem tóku við af dýrari lyfjum. Þetta er allt saman skjalfest og liggur allt saman fyrir. Ég er afskaplega ánægður með að hafa náð þessum árangri í minni tíð. Það var svo sannarlega ekki auðvelt og svo sannarlega ekki óumdeilt, það var alls ekki þannig að ýmsir hagsmunaaðilar berðust ekki gegn þessu. Mér þætti miður ef heilbrigðisyfirvöld ætluðu að slaka eitthvað á hvað þetta varðar, því við getum gert enn betur. Liður í því var að afnema afslættina, en menn vildu ekki taka neina áhættu með það og vildu gera þetta samhliða kostnaðarþátttökukerfinu.

Virðulegi forseti. Ég tel afskaplega mikilvægt að heilbrigðisnefnd fari vel yfir þetta mál, mjög vel og í þessu stóra samhengi. Ég vænti góðs af samstarfi í nefndinni hvað þetta varðar, en það er útilokað annað en að líta á þetta mál í stærra samhengi.