138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni heilbrigðisnefndar Þuríði Backman fyrir málefnalega ræðu. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að þetta er flókið og mjög stórt mál. Þetta er einn angi af miklu stærra máli. Ef hv. þingmenn ætla að fara vel yfir málið, ég ætla mönnum ekki annað, mun það þó taka dágóðan tíma. Við sjálfstæðismenn erum hins vegar fúsir í þá vinnu, það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt í þessu máli eins og öllum öðrum.

Ég er þó farinn að hafa mjög miklar áhyggjur af tímanum. Eitt eru fjárlögin. Það er augljóst að við þurfum að fara yfir þann þátt mála, m.a. skipulagsbreytingar og annað slíkt, og við erum ekki enn þá búin að fá t.d. þá útreikninga sem liggja fyrir og hafa legið fyrir varðandi t.d. kragasamstarfið. Við erum búin að heyra hverjar niðurstöður þess máls eru en við erum ekki búnir að sjá það.

Sömuleiðis hefur hið gríðarstóra mál varðandi hjúkrunarheimilin ekkert verið rætt og við höfum ekki kallað einn einasta aðila inn til að ræða að færa hluta heilbrigðiskerfisins yfir til félagsmálaráðuneytisins. Ég ætla mönnum ekki annað en vilja fara vel yfir það en ég held, virðulegi forseti, að nú sé 17. nóvember og það eru mjög fáir þingdagar eftir. Ég hefði því viljað heyra frá hv. þingmanni, formanni heilbrigðisnefndar, hvernig menn ætla að vinna þessa þætti. Þetta eitt og sér, þótt það láti lítið yfir sér eins og hv. þingmaður benti á, er stórmál.