138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem hér hefur orðið, og hefur orðið kannski allmiklu umfangsmeiri en tilefnið er, um þetta litla frumvarp sem ég leyfði mér í hálfkæringi að kalla góðkunningja þingmanna áðan.

Ég vil minna á að markmiðið með þeim breytingum á lögum sem voru gerðar á árinu 2008, afsláttarbreytingunum, var tvíþætt. Annars vegar var verið að setja eins konar bann við afsláttum á heildsölustigi með því að mönnum var gert að tilkynna til lyfjagreiðslunefndar um lækkun frá hámarksverði og selja lyfin á sama verði alls staðar. Hins vegar var um að ræða bann við afsláttum yfir borðið í apótekunum og um það ákvæði erum við að fjalla hér.

Í framsöguræðu minni áðan kom fram að árangur sem til var ætlast með þessu afsláttarfrumvarpi á sínum tíma hefur verið góður. Hann hefur náðst að mati formanns lyfjagreiðslunefndar og það þrátt fyrir að þetta bann við afslætti yfir borðið hafi ekki orðið að veruleika.

Ég nefndi áðan að það sé mat manna að með banni við afsláttum á heildsölustigi hafi sparast um 500 millj. kr. í smásöluverði á hverju ári. Það er allhá fjárhæð en fleira hefur verið gert. Náðst hefur verulegur árangur á þessu ári í lækkun lyfjakostnaðar, menn þekkja kannski þessar tölur en það er talið að 1.500–1.600 millj. kr., miðað við óbreytt gengi, hafi sparast vegna ýmissa aðgerða sem gripið hefur verið til í því skyni að lækka lyfjakostnað ríkisins eða sjúkratrygginga. Þessar aðgerðir hafa orðið til þess að útlit er fyrir að lyfjakaup verði innan fjárlaga á þessu ári þótt erlent gengi hafi hækkað um 40–60%.

Vegna þess að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hvetur til þess að mjög vel verði farið yfir málið, sem eðlilegt er, og líta þurfi á þetta í stærra samhengi vil ég nefna að frekari aðgerðir eru í gangi eða í farvatninu en ég hef þegar nefnt. Í gangi er átak í lyfjainnkaupum og lyfjanotkun heilbrigðisstofnana sem og samstarf við Noreg sem vonandi mun leiða til lækkunar á lyfjaverði hér með því að sjúkrahús eins og Landspítali – háskólasjúkrahús gætu verið með í útboðum á dýrum lyfjum sem eru boðin út í Noregi. Það er verið að skoða greiðsluþátttökukerfi í dýrum lyfjaflokkum og stefnt er að því að gera lyfjaverðskrána aðgengilega í sölukerfinu með ódýrustu valmöguleikum. Það er í gangi tilraunaverkefni þar sem fyrirtæki geta sótt um markaðsleyfi á Íslandi samhliða því sem þau sækja um í Svíþjóð og ein 60 lyf munu vera komin með markaðsleyfi á Íslandi í kjölfarið á því. Það eru ódýrari lyf, lyf í ódýrari flokkum, og þetta mun að mati þeirra sem til þekkja leiða til sparnaðar í lyfjakostnaði.

Með svona mikilli hækkun á erlendum gjaldeyri sér hver maður hversu fráleitt það er að flytja í miklu magni vatn til að nota sem innrennslisvökva fyrir lyf inn til Íslands sem á svo mikið af hreinu og góðu vatni. Það er mikill áhugi á að framleiða slíkan vökva, eins og hv. þm. Þuríður Backman nefndi áðan. Skoðað hefur verið að gera það í samstarfi við Færeyinga en einnig hafa ein þrjú bæjarfélög lýst yfir áhuga á því við ráðuneytið að undanförnu að koma að slíkri framleiðslu. (BJJ: Grenivík.) Þrjú sveitarfélög. Fyrst hv. þm. Birkir J. Jónsson nefnir Grenivík, sem mun vera í Norðausturkjördæmi —„tilfældigvis“— vil ég nefna hin tvö sem eru Akranes og Höfn í Hornafirði. Auk þess hafa verið viðræður í gangi við Færeyinga eins og ég sagði.

Hvað tækniþróun varðar og tækifæri í þeim efnum eru rafrænir lyfseðlar auðvitað til mikils sparnaðar en ekki síður öryggis í þessum efnum. Framkvæmdanefnd er að störfum við að undirbúa lyfjastefnu til 2012. Þessar aðgerðir eru allar í farvatninu eða í gangi og lúta að því að lækka lyfjakostnað og auka öryggi í lyfjatilvísunum og -notkun.

Þó verður líka að segjast eins og er að á undanförnum árum hefur verið unnið að drögum að nýjum lyfjalögum sem kominn er tími á. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á lyfjalögunum og einnig hafa orðið breytingar á EES-reglum. Nýrri lyfjastefnu sem er í mótun þarf að finna farveg inn í lyfjalögin. Ég tel að það sé orðið brýnt að ljúka vinnu við frumvarp að heildarlyfjalögum sem yrði lagt fyrir Alþingi og þá mun væntanlega gefast færi á að ræða þetta mál allt í stóru samhengi.

Ég vil segja að lokum að ég tel ekki rétt að láta þessa lagagrein niður falla. Ég tel mjög rangt og held að það væru röng skilaboð sem send væru út í samfélagið ef lyfjaverð ætti að hækka 1. janúar nk. Þetta frumvarp fjallar um að lyfjaverð í apótekunum til þeirra sem hafa notið afsláttar þar, sérstaklega til þeirra félagasamtaka sem hafa samið um slíka afslætti eins og Hjartavernd, hækki ekki 1. janúar með því að greinin um bann við slíkum afsláttum taki gildi. Ég vil því hvetja til þess að hv. heilbrigðisnefnd fari ekki einungis vel yfir málið og taki sér dágóðan tíma í það eins og hér hefur verið nefnt heldur þvert á móti fari hún vel yfir það en reyni að tryggja um leið að það geti orðið að lögum fyrir 1. janúar nk. til að koma í veg fyrir að lyfin hækki.

Ég vil að lokum segja, frú forseti, að ég tel mjög mikilvægt að koma á réttlátara greiðsluþátttökukerfi, ekki síst hvað varðar lyfin en einnig lækniskostnaðinn, með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn háum og vaxandi kostnaði. Ég mun nýta þá vinnu og þau gögn sem kennd eru við svonefnda Pétursnefnd í þeirri vinnu.