138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[16:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög einfalt og ágætt að rifja upp hver var verkefnalisti hvers ráðherra fyrir sig því það er misskilningur að þetta gerist allt saman af sjálfu sér. Menn þurfa að vera mjög einarðir í þessu og ég get alveg listað upp hvaða verkefnum ég vann að og þess vegna tilgreindi ég þau sem hér komu fram.

Ég fékk þau skilaboð þegar ég kom inn í ráðuneytið að það væri ekki hægt að lækka lyfjakostnað. Því fer víðs fjarri að menn þurfi ekki pólitíska forustu til að fara í þessi mál. Nákvæmlega sömu rökin voru notuð og hæstv. ráðherra nefndi þegar við komum að því að afnema afsláttinn í heild sinni. Menn sögðu: Það eru afslættir í gangi. Um leið og þú bannar afslætti hækkar verðið. Það gerist ekki þannig. Sérstaða þessa markaðar er mjög mikil.

Hv. þm. Þuríður Backman fór ágætlega yfir þetta gríðarlega flækjustig sem er á þessu. Þetta er ekki gagnsætt og við Íslendingar ættum að þekkja hvað gagnsæi skiptir miklu máli, ekki bara á þessu sviði heldur mörgum öðrum. Smásalar munu keppa um að fá sjúklingasamtök og aðila þeirra inn á sitt borð. Út á það gengur málið. Það hvarflaði ekki að neinum manni að það að afnema afslætti, og það er ekki reynsla þeirra þjóða sem hafa afnumið afslætti, að það leiði til hækkunar fyrir sjúklinga. Þvert á móti. Hins vegar er alltaf hætta á því þegar farið er í kerfisbreytingu sem þessa í einhverjum lyfjaflokki að þær muni ekki skila sér. Þess vegna sögðu menn: Við skulum þá taka kostnaðarþátttökukerfið í einu þannig að við girðum fyrir öll slys í þessu. Með því að afnema afslættina höfðu menn ekki áhyggjur af því að það mundi hækka verðið til sjúklinga.