138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:16]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Í fyrsta lagi er ég sammála þingmanninum um mikilvægi þess að áætlunin fái umfjöllun í nefndinni. Asinn í sumar átti sér tilteknar skýringar og stafaði fyrst og fremst af því að menn töldu að það yrði svokallað halaþing, sem síðan varð ekki. Ég held að yfirleitt sé betri bragur á því að menn séu í jafnvægi þegar þeir taka mál út úr nefndum.

Ég hef jafnframt, svo að ég láti þingmanninn vita af því og Alþingi allt, nýtt tímann í millitíðinni m.a. til að ná sátt hvað varðar heimkynni brekkubobbans. Ég vænti þess að núna sé síður núningur en hefur verið og ég veit að þingmenn Suðurkjördæmis hafa staðið sína vakt mjög vel í þeim efnum. Það var ekki síst fyrir þá vakt sem ég lagði í þessa vinnu.

Hvað varðar þessa skörun ramma- og náttúruverndaráætlunar erum við með ákveðinn lagaramma utan um náttúruverndaráætlunina og mér ber að leggja hana fram. Þar á meðal er þessi skýri vilji sem er í raun og veru hluti af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna sem varðar stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og það er ástæðan fyrir því að lagt er af stað með þá vinnu. Hún er komin á veg hjá Umhverfisstofnun að því er varðar stækkunina á svæðinu og endurskilgreiningu á útmörkunum. Eins og ég kom inn á í framsögu minni hef ég sérstaklega mikla ánægju af því er varðar möguleikann á því að jökullinn allur verði friðlýstur og þar með að styrkja svæðin beggja vegna jökuls. Ég held að þarna séu mikil sóknarfæri fyrir náttúruvernd á Íslandi.