138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að nokkru leyti á svipuðum slóðum í mínum spurningum og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Ég vildi fyrst segja að ég fagna því auðvitað að málið sé nú komið aftur inn í þingið þannig að við fáum tækifæri til þess að fara yfir það.

Þingið kemur með nokkuð takmörkuðum hætti að framkvæmd þessara mála. Mjög margar ákvarðanir sem snerta náttúruvernd eru teknar af umhverfisráðherra eða öðrum stjórnvöldum og koma ekki beinlínis til afgreiðslu á þinginu. Af því tilefni vildi ég leita eftir skoðun hæstv. umhverfisráðherra á því að hvaða leyti hún telji að sú náttúruverndaráætlun sem samþykkt er á þingi bindi hendur umhverfisráðherra og þeirra stofnana sem undir hann heyra. Telur ráðherra að sér sé skylt að framfylgja þeim ákvörðunum eða þeirri stefnumótun sem tekin er í náttúruverndaráætlun eins og hún er afgreidd af Alþingi? Telur hæstv. ráðherra að hún hafi umboð til þess að taka ákvarðanir á þessu sviði sem ekki lúta ákvæðum náttúruverndaráætlunar?