138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:24]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þessar spurningar. Náttúruverndaráætlun er klárlega áætlun þingsins og stefnumörkun þingsins í náttúruverndarmálum er þannig að ráðherra hefur skýrt umboð til að vinna að friðlýsingum í anda náttúruverndaráætlunar þegar hún hefur verið samþykkt, að því gefnu að haft sé samráð við heimamenn, ábúendur, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila.

Þingmaðurinn spurði um umboð ráðherra að öðru leyti. Ráðherra getur samkvæmt náttúruverndarlögum haft sjálfstætt frumkvæði að því að hefja undirbúning friðlýsingar, þannig er það samkvæmt lagaumhverfinu. Ég er svo sem sammála þeim undirtóni sem kom fram í máli þingmannsins, að aðkoma þingsins mætti vera almennt meiri í umhverfismálum. Málaflokkurinn þarf í raun og veru að taka meira vægi almennt í pólitískri umræðu og oftar og á frjórri máta en bara þegar um er að ræða átakapóla og átakafleti. Ég held að ekki síst núna í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar og síðan í úrvinnslu hennar komum við til með að sjá það sífellt betur að umhverfis- og náttúruverndarmálin eru vaxandi málaflokkur í stjórnmálaumræðunni um allan heim og við verðum auðvitað að vera samferða í þeim efnum. Ég er afar stolt af því og ánægð að eiga sæti í umhverfisráðuneytinu einmitt þegar þau tímamót verða.