138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:28]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forsendur náttúruverndaráætlunar eru í grundvallaratriðum faglegar og vísindalegar, því megum við ekki gleyma. Þetta snýst ekki bara um að horfa á landakortið og benda á staði sem okkur þykja verndunar virði.

Hitt er annað, og það hefur vakið athygli mína þar sem ég er tiltölulega nýsest í stól umhverfisráðherra, að frumkvæði heimamanna hefur líka skipt mjög miklu máli en við erum með þó nokkrar friðlýsingar þar sem frumkvæðið kemur í raun og veru frá sveitarstjórnarmönnum og sveitarfélögunum sjálfum. Þarna er um flókið samspil og samstillingu að ræða.

Hv. þingmaður spurði um frekara samráð. Ég hef nýtt tímann á þessum sex mánuðum frá því að ég tók við til þess að kalla fram tiltekna vinnu í umhverfisráðuneytinu sem varðar ekki samráð við einstaka aðila eða hagsmunaaðila heldur til að kortleggja og leggja betur niður fyrir okkur hvernig samráðsferlið er mótað. Auðvitað þarf að aðlaga það hverju verkefni fyrir sig í samráði við helstu hagsmunaaðila sem eru mismunandi. Það getur verið að mismunandi ferli eigi við eftir mismunandi svæðum, eftir því hvort um er að ræða einn eða marga landeigendur, eitt eða mörg sveitarfélög, hvort um er að ræða friðlýsingu plöntutegunda, vistgerða eða jarðfræðisvæða. Bæði fulltrúar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar hafa setið allmarga fundi í ráðuneytinu til þess að kortleggja og gera þennan feril allan skýrari og gagnsærri og þannig að hann sé skiljanlegri öllum aðilum, bæði þeim sem hafa með friðlýsinguna sjálfa að gera en ekki síður heimamönnum og hagsmunaaðilum rétt eins og þeim sem þingmaðurinn nefnir hér.