138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að hártoga þessa umræðu eitthvað mikið, en rammaáætlunin er ekki tilbúin. 1. áfanganum var skilað um árið en nú er 2. áfangi í smíðum. Það er að sjálfsögðu á valdi þeirra sem hér ráða hvort niðurstöður úr þeirri vinnu verði að einhverju löggiltu plaggi eða ekki. Nú eru hv. þingmaður og samflokksmenn hennar með völdin í sínum höndum en ég varpa einfaldlega fram þeirri spurningu hvort ekki sé einsýnt að við höldum okkur við þann ramma sem er búið að skapa — sem þó er búið að skapa — þótt vinnubrögðin hafi verið á ákveðinn hátt í fortíðinni og búið að ákveða að setja niðurstöður úr rammaáætlun í ákveðinn farveg? Við tölum svo fallega um það á hátíðarstundum að þessi farvegur komi til með að vera svo — góður er kannski ekki rétta orðið, heldur skýr þannig að þar náum við einhvers konar sátt um það hvar skuli vernda og hvar megi virkja. Er ekki komið að því að við tileinkum okkur þau vinnubrögð að fara eftir því sem við sjálf höfum ákveðið og erum svo agalega sátt við á tyllidögum? Það er í rauninni það sem ég er að leiða fram.

Ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á náttúruvernd og miklar hugsjónir í þá átt. Ég skil þau sjónarmið vel vegna þess að ég er að mörgu leyti sammála því að okkur beri að umgangast náttúruna af mikilli virðingu. Engu að síður, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðunni, þurfum við að lifa með landinu okkar og lifa á þeim gæðum sem hér eru til staðar. Þetta tvennt verður að spila saman og það er á okkar ábyrgð að gera það.

Eitt dæmi um atvinnusköpun er nytjajurtin hvönn sem við vorum að tala um sem einn þeirra þátta sem er fjallað svolítið um í náttúruverndaráætluninni. Hún er einfaldlega slegin og notuð í meðul og hálstöflur þannig að það er (Forseti hringir.) ýmislegt sem hægt er að gera við þessar ágætu jurtir okkar.