138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:12]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram kom hjá hæstv. umhverfisráðherra að fræðslan er mikilvæg. Ég vonast til, og ég tel jafnvel að maður sjái vísbendingar um það nú þegar að viðhorfsbreyting er að verða í þessum málaflokki varðandi náttúruvernd og það að friða svæði. Ég vil sérstaklega tilgreina sveitarfélagið Höfn í Hornafirði því þar tel ég mig finna talsvert mikla viðhorfsbreytingu varðandi Vatnajökulsþjóðgarð. Þar er að verða, tel ég, almenn upplifun á því að Vatnajökulsþjóðgarður verði mjög mikið tækifæri til sóknar í byggðamálum á því svæði. Þar er að skapast mjög jákvætt viðhorf gagnvart Vatnajökulsþjóðgarði og þeim möguleikum sem hann getur skapað fyrir ferðaþjónustuna á því svæði og til sóknar í uppbyggingu atvinnutækifæra.

Í sumar var mjög mikil aukning á ferðamönnum á landinu. Ég átti þess kost að taka einn hring um landið á sex dögum, sem má segja að hafi verið Ísland á hraðferð. Ég heimsótti mörg söfn og gestastofur, fjölmarga markaði sem selja mjög mikið af handverki núna og það var sama sagan hjá öllum. Þau giskuðu á 20% aukningu gesta í sumar. Menn fara vonandi að gera sér grein fyrir því að það að vernda og friða svæði eykur möguleikana á því að ferðaþjónustufyrirtæki vilji vera á svæðinu og byggja upp ferðaþjónustu þar sem fólk sem hingað sækir gerir það meira og minna út af náttúrunni, eða yfir 70%. (Forseti hringir.) Ég held að með meiri fræðslu og þessari viðhorfsbreytingu gangi þessar friðlýsingar hraðar fyrir sig.