138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:22]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa ádrepu um náttúrustofurnar og mikilvægi þeirra því að ég sannarlega deili þeirri upplifun og þeirri skoðun að mikilvægi þeirra er gríðarlegt. Þetta eru ekki bara umsagnaraðilar heldur ekki síður mikilvægar burðarstoðir oft og einatt í sveitarfélögunum. Ég hef séð mörg góð dæmi um það. Þetta eru ráðgefandi aðilar fyrir sveitarfélögin í náttúruverndarmálum á öllum mögulegum hliðum og ég vil sérstaklega brýna þingmanninn í þeim efnum að standa með náttúrustofunni í Stykkishólmi að því er varðar stórhuga plön þeirra og umfjöllun um að Green Globe votta öll sveitarfélög á Íslandi. Það er með því skemmtilegra sem ég hef heyrt undanfarið þegar kannski fer ekki mikið fyrir bjartsýnum hugmyndum en hún er sannarlega flott og vel og bjartsýnt fram sett og ég ætlaði einmitt að nefna það í tengslum við ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur áðan sem nefndi Green Globe vottunina og þau sóknarfæri sem í henni felast.

Ég mun ekki gera neitt annað, hv. þingmaður, eða svo ég beini orðum mínum til forseta eins og ber að gera hér, hæstv. forseti, en styðja og standa með þingmanninum í því að náttúrustofurnar hafi meiri hlutverk og ef það er verkefni sem umhverfisnefnd getur tekið að sér í umfjöllun og meðförum varðandi náttúruverndaráætlun sé ég ekkert því til fyrirstöðu, þ.e. að samstarfið við náttúrustofurnar sé aukið og styrkt að því er varðar framkvæmdina á náttúruverndaráætlun og að það sé sérstaklega nefnt í þingsályktuninni þegar hún verður afgreidd út úr þinginu finnst mér bara eðlilegt og jákvætt. En staðan er auðvitað þannig að við getum ekki afhent þeim beinlínis verkefnið vegna stöðu þeirra í stjórnsýslunni en við getum sannarlega vakið máls á því í lokaafgreiðslu þingsins.