138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman sagði í ágætri ræðu sinni áðan um það mál sem við ræðum hér að verið væri á fullu að efla orkufrekan iðnað í landinu en á sama tíma vantaði okkur alla framtíðarsýn varðandi náttúruvernd. Við vissum í raun ekki hvert við værum að stefna og því væri mjög mikilvægt að ljúka rammaáætlun um virkjanakosti í landinu. Undir það tek ég en á sama tíma er mikilvægt að litið sé til þess þegar við ræðum náttúruverndaráætlun til ársins 2013.

Hún sagði einnig að við hefðum bara látið orkunýtingarhugmyndir ráða ferðinni á undanförnum árum. Ég tel að þessi málflutningur, virðulegi forseti, sé mjög hættulegur þegar við ræðum um náttúruvernd í landinu og nýtingu náttúruauðlinda. Þessi einstrengingslegi málflutningur sem er væntanlega til þess fallinn að koma okkur lítt áfram í þessum málaflokki sem er svo mikilvægur, hvort sem hann snýr að verndun náttúruminja á Íslandi og náttúrunnar almennt eða nýtingu þeirra náttúruauðlinda sem okkur er svo mikil nauðsyn á að nýta til þess að efla íslenskt samfélag.

Hv. þm. Þuríður Backman nefndi einnig að það væri mjög mikilvægt að vernda ákveðin svæði til að mynda á Reykjanesi sem hefði getað orðið mjög til eflingar íslenskri ferðaþjónustu og að nýting almennt á náttúruauðlindum eða náttúru Íslands gæti orðið til eflingar á ferðaþjónustu í landinu. Þá ber að hafa í huga að nýting náttúruauðlinda til atvinnusköpunar og arðsemi fyrir okkar samfélag getur vel farið saman með aukinni nýtingu ferðaþjónustunnar. Um það höfum við fjölmörg dæmi, ekki bara á síðustu árum heldur áratugum. Víða hefur nýting náttúruauðlinda, virkjanir og aðrar framkvæmdir orðið til þess að efla mjög ferðaþjónustu á þeim svæðum sem um ræðir og einnig búið til vinsæl útivistarsvæði fyrir almenning og ferðafólk í þessu landi.

Ég vil nefna sem dæmi Elliðavatn sem er einhver mesta útivistarparadís sem við höfum hér á höfuðborgarsvæðinu. Elliðavatn varð til fyrir það að við fórum að virkja og búin var til stífla. Í dag er þetta eftirsótt paradís fólks á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu og ferðamanna sem koma og heimsækja okkur. Við getum talað um Bláa lónið sem yfir 400 þús. manns heimsóttu á þessu ári, Hellisheiðarvirkjun þar sem á annað hundruð þúsund manns kom til að skoða þau undur sem þar eru og virkjun við Kárahnjúka sem varð lykill að eflingu á ferðaþjónustu á Austurlandi. Um það held ég að ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi séu allir sammála.

Það er mjög mikilvægt þegar við ræðum þennan málaflokk að við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að feta leið nýtingar og verndunar, þetta verður að fara saman í okkar landi. Þetta þarf að vera grundvallaratriði, sérstaklega hjá þessari þjóð sem byggir afkomu sína alfarið á náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda til lands og sjávar. Náttúruvernd verður þannig samspil náttúruverndar og þeirra svæða sem við ætlum að nýta.

Fáar ef nokkrar þjóðir, virðulegi forseti, hafa gengið lengra í að vernda land í formi náttúruverndar en við Íslendingar. Svæði sem friðlýst hafa verið á grundvelli náttúruverndarlaga eða með sérlögum til náttúruverndar eru nú um 96 talsins og flatarmál þeirra spannar um 20 þús. ferkílómetra eða sem svarar til tæplega 20% af öllu flatarmáli landsins. Þau skiptast í marga friðlýsingarflokka sem eru settir samkvæmt sérlögum og samkvæmt náttúruverndaráætlun. Þetta eru tæpar tvær millj. hektara lands, virðulegi forseti, og svo talar hv. þm. Þuríður Backman um að hér hafi stóriðjustefna eða orkufrekur iðnaður fengið að ráða ferðinni þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda á undanförnum árum.

Við verðum að horfa til þess að við höfum aðeins nýtt lítinn hluta þeirra virkjanakosta sem eru í landinu. Samkvæmt þeim sem hafa skoðað þau mál í hörgul er reiknað með að ef við nýttum okkar helstu virkjanakosti mundu þeir einungis taka um 2% af landinu eða um 10% af því sem við erum búin að vernda nú þegar. Það verður að líta til þessara þátta, virðulegi forseti, þegar við fjöllum um náttúruvernd og hvernig við ætlum að byggja hér upp í framtíðinni.

Það er svolítið sérstakt að hlusta á málflutning þeirra sem kenna sig við náttúruvernd og segjast vera náttúruverndarsinnar. Þeir hafna yfirleitt allri umræðu um nýtingarkostina. Um þetta eru fjölmörg dæmi. Dregnar eru fram efasemdir við alla virkjanakosti og nefnt að það verði að fara aðrar leiðir í uppbyggingu atvinnuvega. Það er aukið mjög á allt regluverk í kringum nýtingarmöguleika í náttúrunni, svo mikið að aðilar vinnumarkaðarins eru farnir að gera alvarlegar athugasemdir við það regluverk sem við þurfum að starfa orðið við. Ég minni á samþykkt og yfirlýsingar á þingi ASÍ árið 2008 þar sem sérstaklega var fjallað um að það yrði að liðka fyrir í regluverkinu, við mættum ekki ganga lengra í því að búa til heftandi regluverk í kringum nýtingu náttúruauðlinda. Þetta hefur gríðarlegan kostnað í för með sér og flókna vinnu fyrir þá sem vilja fara í framkvæmdir. Það verður að vera eðlilegt samspil þarna á milli þannig að við fælum ekki frá okkur þá aðila sem vilja starfa með okkur í uppbyggingu atvinnulífs sem byggist á nýtingu náttúruauðlinda landsins.

Við látum náttúruna njóta forgangs oft og tíðum og almennt séð held ég að við höfum ratað þá leið samkvæmt bestu vitund á hverjum tíma að láta náttúruna njóta vafans. Annað verður ekki sagt um okkur sem viljum nýta náttúruna skynsamlega en að það hafi verið gert af heilum hug.

Í þessu sambandi má nefna alla þá umræðu sem hefur orðið um hvalveiðar í landinu. Þeir sem kenna sig við náttúruvernd hafa lagst gegn því að hvalastofnar yrðu nýttir skynsamlega til framdráttar í atvinnuuppbyggingu og til að skapa útflutningstekjur í landinu. Það hefur komið í ljós og reynslan sýnir okkur að þessi nýting fer vel saman við eflingu annarra atvinnuvega, þessi málflutningur hefur ekki verið á rökum reistur. Með þessum hætti verðum við að reyna að nálgast málin í framtíðinni, virðulegi forseti, þannig að hér verði eðlilegt samspil nýtingar og verndunar.

Ég held að við séum öll á því að virða og vernda mikla og fjölbreytta náttúru þessa lands en það er stórhættulegt þegar fólk sem gegnir forustuhlutverki í þessum málaflokki talar með þeim hætti að allt sem rætt er um á nýtingarvæng þessara mála sé brotið niður og alltaf eigi að fara einhverjar aðrar leiðir.

Ég hvet hv. umhverfisnefnd til þess að vanda mjög sín vinnubrögð við meðferð þessa máls. Ég vil minna á að síðast þegar þetta mál var til umfjöllunar í þinginu þótti umsagnaraðilum allt of mikill hraði hafður á vinnu þess og ekki var hlustað á þau skilaboð sem frá þeim komu. Menn höfðu tæplega tíma til þess að koma sínum athugasemdum á framfæri og það átti að keyra málið í gegn með miklu offorsi. Ég vona að í þessu tilfelli gefi nefndin sér góðan tíma og hæstv. umhverfisráðherra þrýsti ekki meira á þetta mál en þörf er á.