138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir ágæta ræðu og mikil viðbrögð við því sem kom fram í ræðu minni. Það er vissulega rétt að undir Jökli er mikil gróska og mikið sem fylgir þjóðgarðinum en hins vegar hefur ákvörðun varðandi stöðu þess starfsmanns sem fer með yfirstjórn þjóðgarðsins valdið ákveðinni togstreitu meðal heimamanna þar sem sú staða var auglýst staðsett í Reykjavík og að starfsemin fari fram þar. Ég hef ákveðið að beina þeirri spurningu til hæstv. umhverfisráðherra hvaða álit hún hafi á því. Er þetta eðlilegt og verður hlustað á það sjónarmið heimamanna að betur færi á því að viðkomandi væri staðsettur heima fyrir?