138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:48]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á því að framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs sé afar gegn og góður embættismaður og vinni sína vinnu mjög vel. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þessi sjónarmið sem þingmaðurinn reifaði í sinni spurningu séu fyllilega réttmæt og meira en það. Að jafnaði er störfum eins og þessum betur komið í heimabyggð og nær þeirri þjónustu og þeirri starfsemi sem um ræðir.

Ég varð vör við þetta, sérstaklega í byrjun þegar ég tók við ráðherraembætti, að þessi umræða hefði komið upp í upphafi. Ég verð ekki mikið vör við hana núna og ég held að stjórnskipuninni í kringum Vatnajökulsþjóðgarð sé vel fyrir komið, þ.e. að vera með þessi svæðisráð. Ég held að það sé skynsamlegt að vinna þannig og með það fyrir augum að styrkja tengslin við heimamenn og hagsmunaaðila á svæðunum, því þótt þjóðgarðurinn hafi orðið til á sínum tíma varð ég auðvitað vör við heilmikla reynslu og þekkingu á varðveislu og umgengni við landið í samskiptum mínum við heimamenn. Þarna voru til ferðafélög, náttúruverndarfélög o.s.frv., þannig að það er afar mikilvægt að byggja uppbyggingu þjóðgarðsins á þeirri þekkingu sem fyrir er. Stjórnkerfið í kringum Vatnajökulsþjóðgarð lýsir mjög mikilli hugkvæmni hvað það varðar og ég held að það hafi verið farsæl ákvörðun sem og aðrar sem teknar hafa verið í kringum þjóðgarðinn. Þrátt fyrir það eru þetta sjónarmið sem ég hef heyrt og hef skilning á.