138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

13. mál
[18:49]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að hvetja til fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Eins og alþjóð veit liggur mikið við að okkur Íslendingum takist að spyrna við fótum nú og efla atvinnulífið, búa til aðstæður þannig að hér skapist laus störf og vinna að því að gjaldeyristekjur aukist. Við megum aldrei gleyma því að við eigum ýmis góð sóknarfæri í stöðunni þrátt fyrir að staðan sé kannski frekar dökk einmitt þessi missirin.

Hæstv. forseti. Þessi þingsályktunartillaga gengur í meginatriðum út á að ríkisstjórninni verði falið að beita sér fyrir þeim aðgerðum að setja í fyrsta lagi rammalöggjöf um fjárfestingar erlendra aðila, í öðru lagi að áætlun verði gerð um orkuafhendingu til a.m.k. fimm ára og í þriðja lagi að endurskoðuð verði þau lagaákvæði sem gilda um mat á umhverfisáhrifum og það ferli allt saman. Þar sem afskaplega mikilvægt er og brýnt að þetta komist til framkvæmda sem fyrst var lagt upp með það þegar þessi þingsályktunartillaga var lögð fram að þessar aðgerðir yrðu komnar til framkvæmda eigi síðar en 15. nóvember. Hins vegar er ljóst að það gengur ekki eftir miðað við þann tíma sem við höfum til ráðstöfunar þannig að það þarf að fara yfir þetta í nefndinni. Ég óska eftir því að þetta mál fari til umfjöllunar í iðnaðarnefnd, svo því sé hér komið að.

Samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið af Capacent er ljóst að Íslendingar vilja erlendar fjárfestingar og þeir eru hliðhollir því að hingað berist erlent fjármagn að til þess að aðstoða okkur við að reisa við efnahaginn. Gríðarlega mikilvægt er að það komi fram vegna þess að það hefur ekki verið ljóst af hinni pólitísku umræðu hvort menn séu fylgjandi því að hingað komi erlendar fjárfestingar eða ekki. Ljóst er að þjóðin vill það og þarf á því að halda til þess að efnahagslífið rétti úr kútnum. Samtök iðnaðarins hafa jafnframt fjallað um þetta mál og að þessi togstreita sem vissulega ríkir innan ríkisstjórnarinnar um erlenda fjárfestingu og nýtingu orkunnar sé á góðri leið með að valda miklum búsifjum hér á landi. Því er ljóst að það er mikilvægt að grípa til aðgerða.

Eftir efnahagshrunið jókst mjög áhugi erlendra fjárfesta á því að skoða þá kosti sem felast í því að koma hingað til lands með starfsemi. Það er vel. Þetta er tækifæri sem við verðum að grípa og þess vegna ákvað ég ásamt Tryggva Þór Herbertssyni, sem jafnframt situr á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og í iðnaðarnefnd með mér, að leggja fram þessa þingsályktunartillögu.

Svo við förum aðeins yfir efni hennar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að þessi rammalöggjöf verði sett þannig að umhverfið sem mætir þeim erlendu fjárfestingum sem hingað hafa áhuga á að koma sé skýrt. Ljóst er að hér þurfa að vera hvatar fyrir hendi til þess að laða fólk að landinu, hér þarf að ríkja traust gagnvart stjórnvöldum og ákveðinn stöðugleiki í efnahagslífinu. Þá þarf skattumhverfið að liggja ljóst fyrir og að ekki sé verið að breyta því í grundvallaratriðum með litlum eða engum fyrirvara. Þá er gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórn Íslands gefi út þau skilaboð að hún ætli sér að standa við gerða samninga. Þetta er í rauninni meginatriðið í því að skapa þær aðstæður að erlendir fjárfestar komi hingað til lands. Yfir 100 þjóðir bjóða innlendum og erlendum aðilum ívilnanir til þess að auka atvinnu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við Íslendingar löðum að þekkingu og nýja atvinnuvegi til þess að örva hagkerfið og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þessi umgjörð liggi öll ljós fyrir og sé skýr.

Í öðru lagi er hér fjallað um að gerð sé áætlun um orkuafhendingu til fimm ára. Flestir þeir erlendu fjárfestar sem hugsa sér til hreyfings með að koma hingað til lands tengjast orkufrekum iðnaði, þar er hvort tveggja átt við stóriðju og svokölluð græn tækifæri. Því er ljóst að það þarf að liggja skýrt fyrir hvort og þá hvenær orka er til afhendingar. Rammaáætlun tekur vissulega að einhverju leyti á þessu en hins vegar þarf að vera skýr stefna hjá stjórnvöldum um hvenær og hvernig eigi að nýta orkuna. Þetta þarf að liggja fyrir og þess vegna er lagt til hér að ríkisstjórninni verði falið að vinna slíka áætlun.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að reglur varðandi umhverfismat framkvæmda verði skýrðar. Umhverfismatsferlið virðist vera mjög óskýrt og það liggur hreinlega ekki fyrir í upphafi hvaða ferli fer í gang þegar farið er í stórar framkvæmdir. Þar er helst að nefna nýleg dæmi um beitingu ákvæða í lögunum varðandi sameiginlegt umhverfismat framkvæmda. Það ákvæði þarf að taka til endurskoðunar vegna þess að það er einfaldlega ekki skýrt og mikið liggur við að beita því af ákveðinni skynsemi og festu. Ef við tökum framkvæmdir eins og t.d. álver á Bakka og tengdar framkvæmdir tel ég mikinn efa á því að heimilt hafi verið að beita þessu ákvæði í því tilfelli. Eins er augljóst að ekki var ástæða til þess varðandi Suðvesturlínu. Ef við tölum hins vegar um framkvæmdir eins og Landeyjahöfn, þar sem um er að ræða námu, veg frá námunni niður að höfn og frágang á varanlegum vegi í tengslum við þá framkvæmd, blasir við að þar átti að fara fram og þar fór fram sameiginlegt mat á þessum framkvæmdum. Þetta er því langt frá því notað á réttan og skýran hátt. Þetta frjálslega ákvæði og hin frjálslega beiting þess veldur því að það liggur ekki ljóst fyrir þegar menn fara í framkvæmdir að hvaða umhverfi þeir eiga að ganga. Það er gríðarlega mikilvægt að við beitum okkur fyrir því að þetta verði lagað þannig að menn hafi trú á því umhverfi sem tekur á móti þeim þegar þeir koma hingað til framkvæmda o.s.frv.

Þessi þingsályktunartillaga var áður lögð fram á sumarþingi en náði ekki að komast í umræðu og ekki til nefndar en hins vegar tel ég mjög mikilvægt að í þinginu náist samstaða um að þessi tillaga fái framgang og verði samþykkt. Ég tel að full ástæða sé til þess að vera bjartsýnn á að þverpólitísk samstaða verði um að koma þessu máli í gegn hratt og vel. Eins og ég sagði áðan, frú forseti, óska ég eftir því að þetta mál verði tekið fyrir í iðnaðarnefnd.