138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

13. mál
[20:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera áhugavert að skoða þessa hugmynd eða þessa Afríkuleið með sérstök svæði en hins vegar sé ég fyrir mér, af fenginni reynslu úr sveitarstjórnarmálum og öðru, harðan slag þegar kemur að því að skipuleggja hvar svæðið eigi að vera og slíkt. En ég vil alls ekki slá neitt út af borðinu í þessu, við þurfum að hafa allar hugmyndir sem við getum uppi á borðinu til að koma hér af stað fjárfestingu.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að b-liður þingsályktunartillögunnar, um að gera orkuáætlun til fimm ára, gæti hugsanlega leyst þennan vanda að eiga ekki orku á lager, það lægi fyrir hvað yrði til á hverjum tíma, á hverju fimm ára tímabili og þá gætu aðilar sem hafa áhuga á að fjárfesta eða nýta orkuna notað tækifærið og gert sínar áætlanir út frá því og orkufyrirtækin einnig unnið út frá því.

Ég held að við eigum líka að vera óhrædd við að taka umræðu um það að skilgreina, eins og við held ég öll skiljum, þ.e. annars vegar að tala um auðlind og hins vegar nýtingu á henni. Ég sé fyrir mér að menn eigi að reyna að spýta í lófana með það að fá fjárfesta til að fjárfesta í orkunýtingarmannvirkjunum, þ.e. mannvirkjunum sem þarf til að nýta orkuna, og er þá að tala um virkjanir og annað sem þarf til. Ég held að það sé öllum ljóst og dragi það enginn í efa að ekki er verið að bjóða eða selja fjárfestum auðlindina sjálfa, það er að mínu viti nokkuð ljóst hver á hana, en það er sjálfsagt að leyfa fjárfestingar í mannvirkjunum sem nota orkuna.