138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[21:05]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég álít þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna vera mjög þarfa áminningu og ábendingu um veika stöðu minni hluthafa. Markmið með þessari tillögu er að tryggja að fram fari sérfræðivinna við það að skoða hver lagaleg staða smærri hluthafa er hér á landi samanborið við stöðu þeirra á Norðurlöndunum. Þetta er þá liður í því að skapa traust á íslensku atvinnulífi.

Eitt af því sem einkenndi Suðaustur-Asíuríkin sem fóru í gegnum fjármálakreppu í lok 10. áratugar síðustu aldar var einmitt veik staða minni hluthafa. Þetta einkenni á efnahagslífinu var talin mjög mikilvæg ástæða þess að fjármagn og völd söfnuðust á hendur fárra aðila, aðila sem nýttu stöðu sína til að vinna að eigin hagsmunum frekar en heildarhagsmunum hluthafa og samfélagsins.

Hrun bankakerfisins hér á landi hefur opnað augu margra fyrir nauðsyn þess að staða minni hluthafa verði styrkt. Þess má geta að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra boðaði við upphaf haustþings að hann mundi leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög í samræmi við skýrslu Lagastofnunar um minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Með öðrum orðum hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lesið þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna frá því í sumar og látið fara fram könnun á því hvernig þessi minnihlutavernd er á Norðurlöndunum og á hvern hátt hún er frábrugðin þeirri sem hefur ríkt hér á landi. Það má segja að þegar sé lokið þeirri sérfræðivinnu sem lagt er til í þingsályktunartillögunni að fari fram. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur boðað nokkur frumvörp þar sem verið er að bæta minnihlutavernd í samræmi við niðurstöður þessarar skýrslu Lagastofnunar.

Ég velti fyrir mér hvort flytjendur ályktunarinnar séu kannski óánægðir með niðurstöðurnar í skýrslunni eða hvort ástæða þess að þingsályktunartillagan kemur nú fram sé sú að flytjendur hennar hafi ekki vitað af skýrslunni sem kom út í september. Ástæðan fyrir því að ég velti þessu fyrir mér er sú að ég er formaður viðskiptanefndar og þyrfti þá að vita hvort nefndin ætti að fara í einhverja frekari vinnu en þá sem von er á frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í formi frumvarpa.

Ég vil enn og aftur að lokum, virðulegi forseti, þakka sjálfstæðismönnum fyrir að koma fram með þessa þingsályktunartillögu þó að hún sé á þessari stundu kannski ekki jafnþörf og hún var í sumar þar sem að hluta til er búið að fara í þá vinnu sem lagt er til í ályktuninni að verði framkvæmd.