138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

friðlýsing Skjálfandafljóts.

44. mál
[21:48]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má kannski flokka þá sýn til vinnslu þessa máls inn í þann raunveruleika sem maður er búinn að upplifa á hinu háa Alþingi. Vinnsla slíkra mála tekur yfirleitt einhvern tíma. Inn í þau miklu verkefni sem fram undan eru fram að jólum tel ég þetta ekki vera forgangsverkefni, en þætti mjög eðlilegt að tillagan yrði afgreidd með náttúruverndaráætlun a.m.k. núna fyrir vorið. Það er áætlað að rammaáætlunin liggi frammi núna í janúar svo að í mínum huga gæti þessi afgreiðsla farið saman við hana. Í sjálfu sér hafði ég ekkert hugsað um hvort kæmi á undan, rammaáætlunin eða afgreiðsla þessa máls. Ég vona bara að þegar rammaáætlunin liggur fyrir verði verndargildi þessa svæðis það hátt að það lendi mjög neðarlega í nýtingaráætlun rammaáætlunar og þannig gæti vel farið saman að taka þá ákvörðun að vernda vatnasvæði Skjálfandafljóts bara út af fyrir sig og horfa þar með til framtíðar á mikilvægi þess að geta stækkað Vatnajökulsþjóðgarðinn í norður og hafa vatnasviðið þar undir, hafa þetta landsvæði alveg út í Skjálfanda. Það er mikilvægt.

Ég tel að eftir öllum skilgreiningum ætti (Forseti hringir.) verndarákvæði rammaáætlunarinnar að vera mjög hátt á þessu svæði.