138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

friðlýsing Skjálfandafljóts.

44. mál
[22:00]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir jákvæðar undirtektir og eðlilegan tón hvað það varðar að fara varlega og skoða fleiri möguleika, horfa á rammaáætlunina o.s.frv. Þetta er það sem ég tel að hv. umhverfisnefnd þurfi að gera í þeirri vinnu sem fram undan er. En eftir sem áður þegar við horfum á allar þær hugmyndir sem eru og hafa verið uppi á borðum varðandi undirbúning virkjanaframkvæmda með tilliti til stóriðjuuppbyggingar á komandi árum, hvort sem búið er að ákveða þær framkvæmdir eða ekki, og kannana á möguleikum á orkunýtingu, hafa þær rannsóknir, skoðanir og kortlagning verið á þeim svæðum sem við erum að tala um sem mjög mikilvæg svæði til verndunar, friðlýsinga og svæðum sem gæta þarf að fara vel með til framtíðar litið. Það má nefna Skjálfandafljót, Jökulsá á Fjöllum, Jökulsárnar í Skagafirði, Torfajökul og háhitasvæðin hvar sem þau finnast. Þar sem orka er hefur hún verið metin með tilliti til þess hvort hægt væri að nýta hana til orkuöflunar.

Í því umhverfi þar sem orkunýtingaráherslan hefur verið sterk þá er ekki óeðlilegt að fyrir utan náttúruverndaráætlun sem við vorum með fyrir nokkrum árum og friðlýsingu ákveðinna svæða og minni svæða, ekki landsheilda, komi fram í dag miklu sterkari kröfur um varðveislu ákveðinna landsvæða eða þeirra svæða sem á hugsanlega að fara inn á. Auðvitað er þessu teflt hverju á móti öðru enda getur það ekki öðruvísi verið. En einhvern veginn verðum við að finna sættir í þessu máli og þá þýðir ekki að annar aðilinn eða aðrar áherslurnar nái fram og nái eyrum fólks. Það þarf að gæta jafnræðis í því líka.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, frá mínum hjartans rótum að ég tel að með friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan við Mjóadalsár sé verið að koma til móts við þá sem búa í Bárðardal og norður með fljóti til að taka af allan vafa um að hugmyndin er ekki með þessari þingsályktunartillögu að taka upp heimarafstöðvar eða koma í veg fyrir að bæjarlækirnir séu virkjaðir, alls ekki. Þingsályktunartillagan sem var flutt fyrir ári tók til alls vatnasviðsins og þá horfði ég sérstaklega til sandsins, eins og hv. þingmaður nefndi, að það svæði út á sandi er alveg einstakt. En með tilliti til þessa og að horfa á þær umsagnir sem komu fannst mér rétt að endurflytja tillöguna með þessum hætti þannig að það væri ekki að valda neinum óróleika og koma til móts við allan þann fjölda sem sér tækifæri hvað varðar náttúruvernd út af fyrir sig, koma okkur á kortið með það, ekki bara fyrir okkur sjálf sem þjóð heldur koma okkur á kortið meðal þjóða, að við stöndum vörð um þessa einstöku náttúru sem þarna er. Eins með tilliti til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustunni, því þótt nefnt sé í dag að ferðaþjónustan á þessu svæði hafi ekki enn þá valdið straumhvörfum í fjölgun íbúa á svæðinu eða styrkt byggð né fjölgað hafi á svæðinu, þá geti það sannarlega gerst með ferðaþjónustu eða ferðatengdri þjónustu í framtíðinni eða einhverri annarri.

Það er líka hægt að horfa til annarra svæða sem tengjast t.d. sjávarútvegi þar sem hafa verið öflugir útgerðarstaðir en misst kvóta eða eitthvað komið þar upp á þar sem fiskur hefur horfið, eða rækjan horfið og byggðin veikst. Það er hægt að horfa austur á land þar sem stóriðjuframkvæmdirnar og stóriðjan átti að styrkja þar byggð og íbúaþróun. Við þurfum að bíða aðeins lengur eftir að sjá þá þróun og vonandi verður hún, en það yrði í sjálfu sér kannski ekki ein patentlausn. Við þurfum að horfa á alla þætti til að styrkja byggðina.

En við getum hugsanlega ekki horft nema á einn þátt til að vernda þetta svæði og önnur landsvæði hvort sem það er vegna náttúrufegurðar að við teljum eða út frá jarðfræðinni, sögunni eða hverju það er sem við teljum mikilvægt að afkomendur okkar njóti líka, þá er í raun ekkert nema friðun á einhverju stigi sem við þurfum að beita til að hafa einhverjar hömlur á því með hvaða hætti verður farið inn á slík svæði.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Það væri hægt að halda langar ræður ef við hefðum byrjað snemma að degi og þingmenn verið frískir og með ótakmarkaðan ræðutíma. Ég er sannfærð um að um náttúruvernd og þetta svæði sem hér um ræðir væri hægt að halda langar og góðar ræður en ég tel að svæðið sjálft tali fyrir sig. Það vita allir sem hafa komið inn á það og ég vil hvetja alla þá sem ekki hafa haft tækifæri til að ferðast um svæðið að gera það, njóta þess og láta það ekki dragast um of.

Að svo mæltu, hæstv. forseti, þakka ég fyrir umræðuna.