138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

friðlýsing Skjálfandafljóts.

44. mál
[22:11]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er nokkuð sterkt til orða tekið í greinargerðinn, þ.e. að með friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts væri verið að takmarka afkomumöguleika fólks á svæðinu verulega. Þarna horfi ég til þess að ég hafði fengið svo sterkar ábendingar um virkjanir bæjarlækjanna í Bárðardalnum að ég leyfði mér að taka svona sterkt til orða og var það eingöngu með tilliti til þess. Þess vegna tekur friðlýsingin til alls vatnasviðs ofan Mjóadalsár, að þverám meðtöldum. Því tel ég rétt að byrja svona.

Hvað varðar Vatnajökulsþjóðgarðinn, já, vissulega hefur þetta gengið seint og miklu seinna en björtustu vonir stóðu til. Það hangir kannski á því að ekki er nóg að vera með þá framtíðarsýn að mynda veglegan þjóðgarð eins og Vatnajökulsþjóðgarði var ætlað að vera í byrjun en standa síðan ekki að stofnun hans og uppbyggingu með þeim hætti að hann fái það fjármagn sem þarf. Það er svo langt í land að hann hafi fengið það tannfé sem hann þurfti hvað þá núna þegar við erum í þessari djúpu efnahagskreppu. Því er ekki líklegt að tekið verði á eins og þyrfti. Þetta mun greinilega liggja í lægð í einhvern tíma. Það er framtíðarsýn sem ég horfi til að ef það gengur upp að bæta þá þessu svæði við og ég tel að mjög vel fari á því.