138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

friðlýsing Skjálfandafljóts.

44. mál
[22:15]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er gott að enda umræðuna á því að segja: Þar er ég sannarlega sammála síðasta ræðumanni því það þarf að taka vinnulagið allt upp. Það er ekki nóg að móta náttúruverndaráætlun eins og gert hefur verið í gegnum árin. Það hefur tekið allt of langan tíma. Verklagið hefur ekki verið þannig að það hafi skilað okkur þeim friðlýsingarárangri sem unnið hefur verið að og samráð og aftur samráð er það sem þarf. Ef íbúar svæðanna, eigendur jarðanna eða sveitarfélögin eru ekki með í ráðum og vita ekki hvað er heimilt, hvað á að gera og hvað má gera þá er þetta vonlaust. Þó að svæðið sé friðlýst þá er ekki þar með sagt að enginn megi stíga þar inn fæti. Svæðin eru friðlýst með mismunandi hætti og það á að gera eftir landnotkun, eftir búsetu og eftir því hvað er verið að vernda. Sumt þarf að hafa mjög strangar reglur um þegar verið er að friðlýsa, segjum bara plöntur á afmörkuðu svæði sem eru í útrýmingarhættu. Vissulega þarf að vernda umgengni og að sauðfé eða önnur dýr séu ekki á beit o.s.frv. Á öðrum stöðum er búfjárganga heimiluð eins og alltaf hefur verið. Það verða allir að vita hvar þeir standa og vernda verður í samráði við sveitarfélögin, íbúana og eigendurna. Öðruvísi gengur það ekki. Verklagsferlarnir þurfa að vera allt öðruvísi og markvissari en verið hefur og þar erum við sammála, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, og ég held að það sé gott að enda umræðuna á þeim nótum.