138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

endurreisn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

120. mál
[12:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Árið 1994 var EES-samningurinn lögfestur hér á landi. Innihald hans byggðist að mestu leyti á fjórfrelsinu svokallaða og að Ísland fengi aðgang að innri markaði Evrópusambandsríkjanna með þeim kostum og göllum sem af samningnum leiddu. Í kjölfar laganna um EES-samninginn var Íslandi skylt að setja lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sbr. lög nr. 98/1999, um sama efni. Í 2. gr. laganna kemur fram að sjóðurinn sé sjálfseignarstofnun og hefur innstæðutryggingarsjóður þessi verið mjög í umræðunni eftir fall bankanna, sérstaklega hvort útgreiðslur úr sjóðnum eigi við þegar um algert bankahrun hjá þjóðríki er að ræða eins og hér varð. Sú skoðun er studd með áliti franska seðlabankans og dómi Evrópudómstólsins gegn Þýskalandi frá árinu 2002 og var sú túlkun útbreidd um alla Evrópu, allt þar til reyndi á þá gölluðu reglugerð sem lögfest var hér á landi árið 1999.

Nú liggur fyrir Alþingi nýtt lagafrumvarp um þá skyldu að Íslendingar gangist í ábyrgð fyrir innstæðutryggingarsjóðinn með ríkisábyrgð á skuldum hans og hefur mest verið talað um 800–1.000 milljarða, allt í nafni eins þáttar fjórfrelsisins, að um frjálst flæði fjármagns milli ríkja skuli vera að ræða. Í frumvarpinu er lagt til að einkaskuldir einkafyrirtækis verði ríkisvæddar og er það fordæmislaust hér á landi. Við skulum heldur ekki gleyma því að Alþingi setti lög um þessi efni þann 28. ágúst sl. og er það því alveg hreint með ólíkindum að þetta mál skuli vera komið hér á ný til þingsins. Flestir stóðu í þeirri trú þegar ríkisbankarnir voru seldir að ríkisábyrgð af þeim félli niður um leið, annað hefur komið á daginn og er það mjög nöturleg staðreynd. Nú berast af því fréttir að Kaupþing og Íslandsbanki gangi til erlendra kröfuhafa og að Landsbankanum verði haldið áfram í ríkiseigu, því enginn virðist ásælast hann.

Því langar mig að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í ljósi breytts eignarhalds á þessum þremur bönkum: Hafa verið gerðar ráðstafanir til að endurreisa Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta?

Í öðru lagi ef svo er, telur ráðherrann að ríkisábyrgð sé á sjóðnum?

Í þriðja og síðasta lagi: Hvernig á að tryggja hagsmuni þjóðarinnar í einkareknu bankakerfi svo ekki þurfi að koma til ríkisábyrgðar vegna tryggingarsjóðsins í framtíðinni?