138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

endurreisn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

120. mál
[12:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir svörin og eins þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni.

Nokkur tíðindi eru í þessu svari ráðherrans, því hér kynnir hann til sögunnar að verið sé að smíða nýtt frumvarp sem á að taka lagagildi um nýjan tryggingarsjóð. Það skal vera byggt á breytingum sem koma frá Evrópusambandinu, breytingum sem leiddu til þess að Evrópusambandið lætur okkur Íslendinga sitja uppi með það gallaða regluverk sem það sjálft setti í kringum 1990. Þetta eru mikil tíðindi, það á sem sagt að fórna okkur og þetta eru alveg skýr skilaboð um það. Svo er hitt líka umhugsunarefni að það á að stofna hér nýjan tryggingarsjóð og skilja þann gamla eftir gjaldþrota með ríkisábyrgð. Það eru ekki síður tíðindi að íslenska ríkið skuli sjálft vera farið að stunda kennitöluflakk eins og um gjaldþrota einstaklinga eða fyrirtæki sé að ræða.

Ég velti því fyrir mér hvernig á því stendur að Evrópusambandið skuli nú vera komið af stað með þá vinnu sem hæstv. ráðherra kynnti. Í því finnst mér felast mikil viðurkenning á því að evrópska bankakerfið hékk á bláþræði síðastliðið haust þegar íslensku bankarnir féllu, þá var farið strax í þessa endurskoðun að því er virðist. Íslenska þjóðin situr uppi með 800–1.000 milljarða af þeim leik Evrópusambandsins að stuðla að því að láta þjóðríkin innleiða gallað reglugerðarkerfi. Það er fínt að þetta er komið hér fram á Alþingi Íslendinga, þá vitum við að hverju við göngum.