138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

endurreisn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

120. mál
[12:29]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir gerði hér að umtalsefni aðkomu Íslands og ráðuneytisins að vinnu sem fram fer á vettvangi Evrópusambandsins við breytingar á regluverki fjármálamarkaðarins og sérstaklega innstæðutryggingarkerfisins. Vegna þessa vil ég taka fram að í fyrsta lagi er það alkunna að hið litla íslenska stjórnkerfi getur alla jafna ekki fylgst með öllu því sem gerist innan hins stóra Evrópusambands þegar farið er að breyta regluverki á ýmsum sviðum, en okkur er auðvitað fullljóst sérstakt mikilvægi þess að fylgjast með skoðun á því sem kemur til álita að breyta vegna fjármálakerfisins og er okkur þá innstæðutryggingarkerfið óneitanlega mjög ofarlega í huga. Þannig að ráðuneytið hefur sett sérstakan kraft í það að fylgjast með þessari vinnu innan Evrópusambandsins í ríkara mæli heldur en almennt eru tök á að gera þegar þar er unnið að breytingum á ýmsum reglum sem síðan þarf að innleiða á Íslandi. Það er alveg sjálfsagt að gera þingnefndum grein fyrir þessari vinnu eftir því sem óskað er eftir.