138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

áhrif fyrningar aflaheimilda.

123. mál
[12:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem hér fer fram. Ég verð að segja, frú forseti, að mér fannst hæstv. ráðherra skauta dálítið létt yfir síðustu spurninguna frá hv. þm. Eygló Harðardóttur, hvaða áhrif fyrning aflaheimilda hefði á viðkomandi lánasöfn og eiginfjárstöðu ýmissa bankastofnana. Af því að mjög vandað endurskoðunarfyrirtæki hefur gert úttekt á þessu — þar kemur fram að það muni einungis taka 5–6 ár að setja stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin í gjaldþrot ef þessi vitlausa leið ríkisstjórnarinnar verður farin — langar mig að ræða þetta frekar. Mér finnst mjög sérkennilegt ef hæstv. ráðherra er ekki búinn að kynna sér þessa hluti en ég vænti þess að hann hefði annars reynt að hafa vit fyrir ríkisstjórninni og beina henni frá þessari gölnu leið. Ef menn fara hana mun bankakerfið hrynja aftur. Það kemur alveg skýrt fram.

Eins langar mig að benda hæstv. ráðherra á að nú þegar hafa bankastofnanirnar hækkað álögurnar á sjávarútvegsfyrirtækin (Forseti hringir.) eins og svo mörg önnur fyrirtæki í landinu, alveg gríðarlega mikið. Hefur hann ekki áhyggjur af því þegar menn eru komnir með upp undir 8% (Forseti hringir.) álag á vexti á jen og franka?