138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

áhrif fyrningar aflaheimilda.

123. mál
[12:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn. Það er gríðarlega mikilvægt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra veiti okkur skýr svör. Ég verð að taka undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að heldur finnst mér létt skautað yfir þetta allt saman.

Þeir ráðherrar sem sitja í ríkisstjórn Íslands bera mikla ábyrgð, og þeir bera ábyrgð á því að auka ekki á þá óvissu sem ríkir þegar í íslensku efnahagslífi. Þær hugmyndir sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa sett fram varðandi fyrningu aflaheimilda setja hér allt á hliðina í sjávarútveginum og ekki síður í bankakerfinu. Í rauninni, frú forseti, eru vart boðleg þau svör sem hæstv. ráðherra veitir við 3. lið þessarar fyrirspurnar og ég verð að taka undir með hv. þingmönnum sem hafa kvatt sér hljóðs og ítreka að hæstv. ráðherra veiti okkur aðeins betri og skýrari svör. Eða er þetta atriði virkilega svona léttvægt fundið á borði ríkisstjórnarinnar?