138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

vistunarmat og aðstæður alzheimer-sjúklinga.

32. mál
[13:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir spurninguna en hann spyr hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að gerðar verði breytingar á forsendum vistunarmats fyrir aldraða til þess að taka tillit til alzheimer-sjúklinga og annarra með skylda sjúkdóma.

Vistunarmatið er faglegt og einstaklingsbundið mat á þörfum einstaklinga fyrir varanlega búsetu á hjúkrunarheimilum og hefur frá árinu 1991 verið forsenda fyrir umsókn um dvöl á hjúkrunarheimili.

Frá 1. janúar 2008 tók gildi ný reglugerð um vistunarmat vegna hjúkrunarrýma og starfa nú á grundvelli hennar sjö vistunarmatsnefndir í landinu, ein í hverju heilbrigðisumdæmi, í stað 42 þjónustuhópa sem störfuðu á vegum sveitarfélaganna áður. Frá sama tíma var yfirumsjón með framkvæmd vistunarmatsins flutt frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknisembættisins.

Í þessari reglugerð frá 2008 kemur fram að nefndunum beri að leggja faglegt mat á þörf fólks, óháð aldri, fyrir langvarandi vistun í hjúkrunarrými, eins og það er skilgreint í lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um málefni aldraðra. Jafnframt skuli þær hafa það að leiðarljósi að fólki skuli gert kleift að búa á eigin heimili utan stofnana eins lengi og unnt er með viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Vistunarmatsnefndirnar starfa samkvæmt nokkuð ítarlegum ákvæðum í þessari reglugerð sem ég ætla ekki að eyða tíma í að fara yfir en þetta er í raun staðlað mat byggt á skilgreindum forsendum. Fylgst er með framgangi þessa kerfis eftir breytinguna sem varð með reglugerðinni 2008.

Fyrir um tveimur vikum var haldinn árlegur samráðsfundur landlæknisembættisins með öllum vistunarmatsnefndum landsins þar sem farið var yfir framkvæmd þessara mála á landsvísu og var óskað sérstaklega eftir því að spurning hv. þingmanns yrði rædd þar, þ.e. hvort ástæða sé talin til að gera breytingar á forsendum vistunarmats til að taka tillit til aðstæðna alzheimer-sjúklinga og annarra með skylda sjúkdóma.

Það var álit hópanna — það eru sem sagt nefndir um allt land — að tekið sé tillit til heilabilaðra en að framlag aðstandenda til umönnunar sé ekki nægilega metið. Ráðuneytið mun í samvinnu við landlæknisembættið skoða báða þessa þætti sérstaklega og einkum með tilliti til yngri heilabilaðra einstaklinga því að umræðan snýst oft um aldraða en ekki heilabilaða sem geta verið á öllum aldri. Þetta vistunarmat hefur verið notað á Íslandi frá árinu 1991. Eftir að nýtt fyrirkomulag tók gildi hefur verið gert vistunarmat á nálægt tvö þúsund einstaklingum á landinu og einungis hafa borist tíu skriflegar kvartanir til landlæknis auk óformlegri kvartana og fyrirspurna en engu erindi hefur verið vísað til úrskurðar í heilbrigðisráðuneyti.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, að það þurfi að skoða vistunarmatið betur í ljósi reynslunnar. Ég hef rakið hér hver niðurstaðan var á árlegum samráðsfundi með landlækni 30. október sl. með vistunarmatsnefndunum. Það er alveg rétt að bent hefur verið á að það þurfi kannski að breyta þessu með tilliti til heilabilaðra yngri einstaklinga. Meðal annars hefur verið bent á að það mætti endurskoða eyðublað sem fyllt er út þannig að sérstaklega verði gert ráð fyrir því að aðstæður alzheimer-sjúklinga komi fram og kannski ekki síst sú umönnun sem slíkir sjúklingar njóta oft af hálfu sinna nánustu.

Það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu öðruvísi en að taka undir það sem hv. þingmaður sagði, það fjölgar ört í þessum hópi í íslensku samfélagi og það er afar brýnt að heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld séu vakandi fyrir þeirri þróun og skipuleggi þjónustu í samræmi við aukna þörf.

Um 80% þeirra sem vistast í hjúkrunarrými eru með heilabilun eða vitræna skerðingu af einhverjum toga. Það er hins vegar síðasta heimilið, hjúkrunarheimilið, og það er ljóst að ýmis samfélagsúrræði, t.d. þjónustuíbúðir, sambýli, dvalarrými og aukin heimaþjónusta auk hvíldarinnlagna og dagþjálfunar geta nýst vel og betur framan af sjúkdómsferlinu en varanleg dvöl á hjúkrunarheimili því að alzheimer-sjúklingar lifa í um tíu ár meðan dvöl á hjúkrunarheimili almennt er ekki nema um þrjú ár.

Ég vona að þessi svör hafi svarað spurningum hv. þingmanns að einhverju leyti.