138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

vistunarmat og aðstæður alzheimer-sjúklinga.

32. mál
[13:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir ákaflega greinargóð svör og í rauninni jákvæðar viðtökur við því sem hér var verið að hreyfa við með þeirri fyrirspurn sem ég lagði fram á sínum tíma. Að spurningin sjálf hafi komið til efnislegrar meðhöndlunar hjá þeim sem gleggst þekkja sýnir auðvitað að verið er að reyna að taka á þessum málum með faglegum hætti og það er sannarlega vel. Ég er sannfærður um að það vistunarmat sem menn hafa búið til hefur verið gert eins vel og faglega og hægt var á þeim tíma og þess vegna er mjög mikilvægt að menn séu tilbúnir til þess að fara yfir forsendurnar þegar bent er á að ýmsu þurfi e.t.v. að breyta varðandi forsendur matsins sem tekur til alzheimer-sjúklinga.

Ég hygg að það sé einmitt það sem komið hefur svo glögglega fram í máli þeirra sem töluðu á fundi Félags aðstandenda alzheimer-sjúklinga og skyldra sjúkdóma, að fólk taldi að ekki væri nægilega mikið tillit tekið til þáttar aðstandenda eða framlags þeirra þegar verið væri að skoða forsendur vistunarmatsins sem snýr að alzheimer-sjúklingum. Við vitum að fólk vill vera sem lengst heima og það vilja aðstandendur líka og þeir leggja gífurlega vinnu á sig. Auðvitað hefur hver sjúkdómur sína sérstöðu og alzheimer-sjúkdómurinn hefur m.a. þá sérstöðu að þeir sem honum eru haldnir þola mjög illa röskun. Þess vegna skiptir mjög miklu máli þegar reynt er að finna lausn fyrir það fólk að markmiðið sé að finna lausn til eins langs tíma og hægt er að hugsa sér, ella getur það haft skaðvænleg áhrif á þróun þessa alvarlega sjúkdóms. En ég fagna því að á þessum málum hafi verið tekið og, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, sérstaklega hugað að heilabiluðum yngri sjúklingum, því að því miður eru allt of mörg dæmi um slíkt líka. Ég tel að svar hæstv. ráðherra sýni að þessi mál eru tekin alvarlega og fólk er meðvitað um þann mikla vanda sem þarna er um að ræða.