138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

vistunarmat og aðstæður alzheimer-sjúklinga.

32. mál
[13:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Aðeins örfá orð til að ljúka þessari umræðu og þakka hv. þingmanni fyrir viðtökur hans við svarinu. Ég lauk máli mínu með því að vísa til þess að margir einstaklingar með heilabilun lifa á annan áratug frá upphafi einkenna og það er því ljóst að þjónustuúrræði þurfa að vera af mjög fjölbreyttum toga. Hjúkrunarrýmið, sem er dýrasta úrræðið, er ekki alltaf besti kosturinn, hvorki fyrir einstaklinginn sjálfan, fjölskyldu hans né samfélagið. Ég vil minna á að við höfum talað um það undanfarin ár að búa þannig að heimaþjónustu að fólki sé gert kleift að búa lengur heima áður en það fer á hjúkrunarheimili eða í dvalarrými. En að undanförnu hefur verið lögð aukin áhersla á að auka virkni fólks úti í samfélaginu, þ.e. rætt hefur verið um einstaklingsbundna þjónustu þar sem metið er hver þörf einstaklingsins er fyrir hjúkrunarþjónustu, heilbrigðisþjónustu eða félagslega þjónustu til þess að hann geti verið virkur áfram í samfélaginu. Ekki að heimilið sé eins og stofnun þar sem þjónustan kemur til hans heldur að viðkomandi fái þjónustu til að fara út í samfélagið og vera þar áfram virkur. Þetta er hin nýja sýn á þá þjónustu sem hópurinn Virkari velferð hefur kynnt að undanförnu og ég tel að við þurfum að hafa í huga þegar við tölum um heimaþjónustu og dvöl á stofnunum. Ég vil líka nefna að heimahjúkrun hefur verið efld á landsvísu og uppi eru hugmyndir um áherslubreytingu, þ.e. að auka virkni einstaklingsins úti í samfélaginu enda þótt hann sé haldinn langvinnum sjúkdómi.