138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

hagnýting orku sjávarfalla.

121. mál
[13:22]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er komið inn á afar áhugavert efni sem iðnaðarráðuneytið hefur um nokkurt skeið sýnt mikinn áhuga. Orkustofnun hefur það hlutverk með lögum að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar og orkulindum landsins. Orkustofnun fylgist með þróun mála í virkjun t.d. vinds og síðan sjávarfalla, eins og hér er spurt um, fyrst og fremst í gegnum samstarfsaðila stofnunarinnar á Norðurlöndum og sömuleiðis í Skotlandi. Mat stofnunarinnar er að núverandi kostnaður við sjávarfallaorku fyrir gefið uppsett afl sé í besta falli af svipaðri stærðargráðu og fjárfestingar í vatnsorku- og jarðgufuvirkjunum. Nýtingartíminn af náttúrufarslegum ástæðum er mun skemmri þannig að almennt er nokkuð langt í land með að sjávarfallavirkjanir verði samkeppnishæfar við núverandi virkjanakosti í vatns- og jarðvarma. Engu að síður geta verið til, og eru til, sérstakar aðstæður þar sem sjávarfallavirkjanir koma til greina, t.d. þar sem staðbundin orkuvinnsla getur styrkt orkukerfið og sparað fjárfestingar í flutningi og dreifingu og líka þar sem virkjanir tengjast beint atvinnurekstri sem fellur vel að þess háttar orkuvinnsluferli.

Í apríl 2009 skilaði Ketill Sigurjónsson iðnaðarráðherra skýrslu um virkjun vindorku og sjávarorku hér á landi. Í skýrslunni er m.a. fjallað um virkjun hafstrauma, svo sem sjávarfalla og hringiða svo og öldu- og seltuvirkjana. Í skýrslunni var lagt til að íslensk stjórnvöld fylgdust vel með framþróun sjávarvirkjana og skoðuðu nánar virkjanamöguleika af þessu tagi, sérstaklega uppsetningu sjávarfallavirkjunar við Breiðafjörð og möguleika á sjávarvirkjun á Vestfjörðum og/eða í Hrútafirði. Þá var lagt til að stjórnvöld íhuguðu af mikilli alvöru þann möguleika að Ísland yrði í fararbroddi og setti sér metnaðarfull markmið, en raunhæf, til að svo mætti verða.

Annað sem ég vil líka nefna er að Straumhjólið var meðal verkefna sem hlutu styrk úr Orkusjóði í júlí sl. en verkefnið er á vegum Valorku ehf. sem Valdimar Össurarson fer fyrir. Það verkefni fékk 2 millj. kr. styrk. Straumhjólið er spennandi verkefni í þróun en það er nýr íslenskur hverfill sem gæti hentað til að virkja sjávarföll og líka hægstreym vatnsföll. Fyrsti áfangi felst í smíði prófunarlíkana, prófunum í keri og mati á afköstum og markaðshorfum hverfilsins. Stjórnandi prófananna verður Halldór Pálsson, vélaverkfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, og er samstarf haft við Orkuskóla Keilis, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og líka Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Með þessu fylgist iðnaðarráðuneytið af áhuga.

Í ágúst sl. skipaði ég stýrihóp til að vinna að mótun heildstæðrar orkustefnu í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þar munu þessi mál jafnframt koma inn á borð. Í hópinn voru skipaðir Vilhjálmur Þorsteinsson, forritari og frumkvöðull, sem er formaður, Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur, Bergur Sigurðsson umhverfisefnafræðingur, Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Guðrún Jóna Jónsdóttir tölvunarfræðingur og Gunnar Tryggvason, rafmagns- og orkuverkfræðingur. Hlutverk þessa hóps er að ná heildarsýn yfir mögulegar orkulindir í landinu og til að mynda þá sem hér um ræðir, aðferðir og tækni við nýtingu þeirra, hugsanleg umhverfisáhrif, sjálfbærni nýtingarinnar ásamt rekstrarlegri og þjóðhagslegri hagkvæmni.

Í öðru lagi er spurt hvort Hvammsfjörður hafi verið skoðaður sérstaklega í þessu sambandi. Möguleikar til nýtingar orku sjávarfalla í Hvammsfirði eru þekktir og ýmsir aðilar hafa á undanförnum árum kannað möguleikana og hafa áhuga á áframhaldandi rannsóknum þar. Sjávarorka ehf. hefur sótt um rannsóknarleyfi í Hvammsfirði og á Breiðafirði vegna sjávarfallavirkjunar til Orkustofnunar á grundvelli laga nr. 57/1998 sem var dagsett 10. september sl.

Með erindi, fjórum dögum síðar, þann 14. september, óskaði Orkustofnun eftir frekari upplýsingum um umsóknina og vakti um leið athygli fyrirtækisins á því að samkvæmt lögunum taka þau til auðlinda innan netlaga. Ágreiningur er um þetta atriði milli aðila. Í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga verða Sjávarorku ehf. sendar umsagnir sem koma frá fleiri aðilum. Kallað hefur verið eftir og fyrirtækinu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum um þær. Þetta er enn í umsagnarferli en frestur rann út 9. nóvember sl.

Það er heilmikil gerjun á þessu sviði og berum við miklar væntingar til þess að við getum auðvitað nýtt allar þær náttúruauðlindir sem við (Forseti hringir.) eigum til að framleiða rafmagn. Ég vona að það sem ég hef talið hér upp muni skila slíkum árangri.