138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB.

[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er með smááhyggjur af orðum hv. þm. Illuga Gunnarssonar áðan varðandi það að við sem búum á útbreiðslusvæði Feykis séum í því að sleikja ljósastaura samkvæmt þeim fréttum sem hann hafði hér uppi. Það er þó ekki þannig, ég vil koma því á framfæri.

Mig langar að velta upp við hv. þm. Ásmund Einar Daðason nokkrum spurningum um Evrópusambandið og Icesave. Ég held að við deilum þeirri skoðun að hluti hrunsins sem varð í bankakerfinu sé vegna gallaðs regluverks Evrópusambandsins. Við vitum líka að það er verið að pína okkur til þess af Evrópuþjóðum og einhverjum mestu forustuþjóðum innan Evrópusambandsins að borga Icesave. Evrópusambandið er með í fylkingarbrjósti þrjú Evrópusambandslönd í að pína okkur í þessu Icesave-máli, Holland, Bretland og Svíþjóð, sem teljast enn til vina okkar, held ég. Það kemur fram í leynigögnunum sem við höfðum til umfjöllunar að það eru náin tengsl við Evrópusambandið um þetta Icesave-mál, fundir, fundargerðir og ýmislegt annað. Síðan kastaði tólfunum þegar fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, lýsti því yfir að nú gæti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lánað Íslandi því að við ætluðum að standa skil á Icesave.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji engin tengsl milli Evrópusambandsins og Icesave og einnig, ef hann telur að það séu tengsl, hvort hann sé þá sammála mér með það að Evrópusambandið hafi beitt sér óeðlilega gagnvart Íslandi við þetta Icesave-mál. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þetta því að að mínu viti er ekki hægt að tala um þetta mál nema þessir báðir hlutir séu undir, Evrópusambandið og Icesave.