138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB -- kyndingarkostnaður.

[13:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að taka þetta mál upp. Varðandi það hvort tengsl séu milli ESB og Icesave finnst mér málið liggja þannig að Ísland sækir um lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í þeim lánasamningum er kveðið á um að ljúka skuli Icesave, í Norðurlandalánasamningunum er kveðið á um að við eigum að standast endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill ekki setja af stað endurskoðun hér fyrr en búið er að ganga frá Icesave og þar af leiðandi liggja norrænu lánin í frosti þangað til. Síðan hóta Bretar og Hollendingar því með Evrópusambandið sér við hlið og í skugga Evrópusambandsins að stöðva afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þannig að í mínum huga eru klár og hrein og skýr tengsl Evrópusambandsins við Icesave-málið með þessum hætti.

Það breytir því ekki að óbein tengsl eru þarna á milli, vil ég meina, en þau eru mjög skýr og mjög greinileg. Það er alveg með ólíkindum hvernig Evrópusambandið hefur beitt sér gegn Íslendingum og með þessum ríkjum, Hollandi og Bretlandi. Þetta sýnir hversu illa er farið með þá sem minni eru því að þarna er ekki spurt um eðlileg samskipti og annað, þarna er einfaldlega sá minni sem verður undir þeim sem stærri er.