138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB -- kyndingarkostnaður.

[13:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það fer ekkert á milli mála að Íslendingar hafa orðið frægir að endemum fyrir ýmislegt upp á síðkastið. Nú held ég að enn eitt dæmið sé að bætast í þennan sarp og það er hvernig staðið er að þessu umsóknarferli að Evrópusambandinu eins og það er kallað. Við vitum auðvitað að ríkisstjórnin gekk þverklofin til þess máls í sumar. Þá var okkur sagt og búin til ný stjórnmálafræðileg kenning um að eftir því sem ríkisstjórn væri klofnari þeim mun sterkari væri hún, ég tala nú ekki um lýðræðið.

Núna sjáum við hins vegar hvað hér er að gerast. Það blasir við öllum mönnum að það er fullkomið hik í þessu máli. Það fer enginn núna með þann sannfæringarkraft í brjóstinu sem þarf að liggja fyrir þegar menn fara til svona mikilvægra viðræðna, það er enginn sannfæringarkraftur á bak við þessa umsókn lengur. Auglýsir t.d. einhver núna að íslenska þjóðin ætti í tilefni af því að búið er að skipa samninganefnd að safnast saman á börum borgarinnar og gleðjast yfir því eins og menn gerðu í sumar? Auðvitað ekki. Það er ekki lengur til staðar þessi neisti sem einu sinni var á bak við þessa hugmynd um umsókn að Evrópusambandinu.

Við sjáum þetta dag frá degi. Andstaðan vex í ranni ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Einstakir þingmenn koma fram, einstakir ráðherrar lýsa yfir andstöðu sinni, einstakir þingmenn hvetja bókstaflega til þess að strax frá fyrsta degi verði unnið gegn þessum samningi sem þó er ekki búið að láta reyna á. Samninganefndin er nýlega skipuð, hefur ekki farið sína fyrstu ferð til Brussel eftir því sem mér er best kunnugt um. Svo sjáum við þetta líka í fjárlagafrumvarpinu þar sem einungis er gert ráð fyrir því að ráðuneytin, fyrir utan utanríkisráðuneytið, fái 50 millj. kr. til að standa að svona mikilli samningsgerð. Við sjáum að það er ekki lengur þessi sannfæring á bak við málið. Hins vegar er öllum ljóst að leyniþráður liggur á milli Icesave-málsins og Evrópusambandsumsóknarinnar og það er það eina (Forseti hringir.) sem drífur þetta áfram, viljinn til að knýja fram Icesave-lausnina og viljinn til að semja við Evrópusambandið. Þar á milli eru hrein og klár (Forseti hringir.) og augljós tengsl.