138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB -- kyndingarkostnaður.

[14:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli hvoru tveggja. Að ekki sé fullur kraftur á bak við umsókn Íslendinga að Evrópusambandinu, ég mótmæli því. En ég mótmæli því einnig að hagsmuna Íslendinga sé ekki gætt í því ferli sem farið er af stað. Ég bara mótmæli því. (Gripið fram í.) Ég segi: Ég mótmæli því. Það þarf engum að koma á óvart hér að sessunautur minn, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sé formaður Heimssýnar, hann sagði mjög greinilega í umræðunni í sumar að hann aðhylltist þetta ekki. Það skortir svolítið mikið á hugmyndaflug hv. þingmanna ef þeir láta það koma sér á óvart að þessi dugnaðarforkur dembdi sér í þetta áhugamál sitt. Ég hef annað áhugamál og ég ætla að standa að því. Og ég mótmæli því líka og er því algjörlega ósammála að vinna tíma, að drepa málinu á dreif, útúrsnúningstillögu Sjálfstæðisflokksins um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en lögð er fram umsókn, ég bara mótmæli henni. Mér finnst það galin hugmynd, ef ég á að segja alveg eins og er. (Gripið fram í: Lýðræðið er oft fyrir.)

Lýðræði er ekki fyrir og það er ekki lýðræði að spyrja hvort menn ætli í umsóknarferlið. Við höfum öll sagt og erum öll sammála um að samningurinn fari fyrir dóm þjóðarinnar. Það er lýðræði. (Gripið fram í: Ef hann …)