138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er forgangsmál á tímum sem þessum að byggja upp traust í íslensku samfélagi. Það hefur minnkað allverulega í kjölfar efnahagshrunsins. Það er rétt sem hér hefur komið fram, lykilatriði í þeim efnum er að allir sitji við sama borð og þá er sama hvort við ræðum um fyrirtæki eða einstaklinga.

Á fundi viðskiptanefndar um daginn kom fram að ríkisbankarnir þrír hafa ekki enn samræmt viðmiðunarreglur um það hvernig tekið er á vanda fyrirtækjanna þrátt fyrir að eitt ár sé liðið frá hruninu. Fólk kallar eftir því að menn sitji við sama borð og því er eðlilegt að við spyrjum: Af hverju hefur ekki á öllum þessum tíma verið gerð tilraun til að samræma verklagsreglur þannig að þingmenn og almenningur hafi þá tilfinningu að verið sé að taka á málum með samræmdum hætti þannig að fólk sitji við sama borð vegna þess að hugtök eins og jafnræði, gagnsæi og réttlæti eru lykilhugtök í þessari umræðu?

Að sjálfsögðu hefur margt dregist og við höfum verið allt of lengi að rísa upp úr þessu hruni. Ég hef minnst á það hér að Mats Josefsson, sem hefur verið ráðgjafi ríkisstjórnarinnar við endurreisn bankanna, hefur gagnrýnt stjórnina mjög harkalega fyrir seinagang í þeim efnum. Skilaboð hafa komið frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar um að mögulega muni þessi ráðgjafi ríkisstjórnarinnar einungis starfa til áramóta og mikið verk er óunnið fram undan. Er það vegna þess að ráðgjafinn hefur gagnrýnt ríkisstjórnina mjög harkalega? Ég spyr mig að því. Það er mikilvægt að við byggjum upp traust hér og ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sé fyrir því að menn móti samræmdar reglur þannig að (Forseti hringir.) fólk hér úti fái tilfinningu fyrir því að allir sitji við sama borð þegar kemur að afgreiðslu innan ólíkra bankastofnana.