138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir að taka málið upp til umræðu þó að ég haldi að við eigum að láta það ógert í ræðustólnum að dylgja eitthvað um starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða annarlegar hvatir manna. Ég held að best fari á því að ætla mönnum að rækja störf sín af trúmennsku, hvort sem það er í þessum sal eða utan hans.

Ég þakka sömuleiðis hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerð hans. Ég undirstrika að það er mikilvægt að ljúka stofnun eignaumsýslufélagsins sem hér var samþykkt í sumar, en um leið er sem betur fer þetta verkefni ekki með sama hætti í fanginu á okkur og við hugðum fyrst eftir hrunið. Það horfði auðvitað þannig að ríkisvaldið sæti meira og minna uppi með stóra hluta af atvinnulífinu í fanginu. Það kallaði á algjörlega sérstakar aðgerðir.

Nú sjáum við sem betur fer fram á það að talsverður hluti af bankakerfinu er kominn í eða mun komast í eigu kröfuhafanna sem munu þá vinna úr þessum verkefnum á viðskiptalegum forsendum, auk þess sem settir hafa verið inn ákveðnir verkferlar í bönkunum og sérstakir umboðsmenn viðskiptavina til að tryggja það að viðskiptavinir njóti jafnræðis. Það þarf hins vegar enn að styrkja með því að tryggja gagnsæi og ákveðna upplýsingagjöf af hálfu bankanna sem enn skortir nokkuð á því að ég held að í upplýsingagjöfinni felist einfaldlega mjög mikilvægt aðhald og að í eignaumsýslufélaginu hafi m.a. verið hugsað fyrir því að menn hafi við þessa endurskipulagningu það aðhald að vita að upplýsingar um það sem þeir eru að gera núna muni birtast, muni verða almennar upplýsingar, og þess vegna muni menn (Forseti hringir.) vanda sig þeim mun betur við að skapa þann aga og aðhald.