138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Sá lagarammi sem Alþingi hefur skapað utan um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja tekur ekki á pólitískum álitaefnum sem eru uppi í dag. Það er t.d. ekkert talað um það hvert eigi að vera markmið þessarar endurskipulagningar. Á að endurreisa fyrirtækin í núverandi mynd með sömu eigendum og stjórnendum eða á að tryggja dreifða eignaraðild, eignarhald starfsfólks og á að taka tillit til byggðasjónarmiða? Eiga bankarnir einungis að meta fyrirtækin út frá viðskiptalegum forsendum þannig að markmiðið verði að hámarka endurheimtur á lánskröfum?

Aðferðafræði sem byggist á viðskiptalegum forsendum eykur líkurnar á því að stórt fyrirtæki eigi meiri möguleika á að verða skilgreint lífvænlegt en lítið fjölskyldufyrirtæki. Auk þess er hætta á að slík aðferðafræði bankanna dragi úr samkeppni þar sem hið endurskipulagða fyrirtæki keppir við önnur fyrirtæki sem ekki hafa fengið sömu fyrirgreiðslu vegna minni skuldsetningar.

Virðulegi forseti. Það er grundvallaratriði að eyða tortryggni í garð bankanna með virku eftirliti og gera þarf kröfu um að bankarnir setji strangar siðareglur, ekki síst varðandi hæfi starfsfólks. Viðskiptavinir bankanna eiga rétt á úrlausnum sem eru faglegar og vel rökstuddar. Það er kominn tími til að taka pólitískar ákvarðanir um hvernig eigi að endurreisa þetta atvinnulíf.