138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:26]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Við þingmenn höfum veigamiklu hlutverki að gegna við endurreisn íslensks atvinnulífs og að endurreisnin takist vel. Fjölmörg álitaefni ber að skoða í þessu sambandi, svo sem samkeppnismálin, skattafsláttinn, jafnræðismál, gagnsæi, verklagsreglur og svo mætti lengi telja. Öll þessi atriði höfum við rætt ítarlega á Alþingi í sumar, bæði hér inni og í nefndum þings, og munum væntanlega gera það áfram. Það er vel.

Hins vegar langar mig að taka þessa umræðu eilítið í aðra átt og skoða hvernig við alþingismenn getum komið sterkari inn í hana vegna þess að við höfum gríðarlega mikla möguleika til að láta að okkur kveða með ákveðnari hætti. Trú á bjartari tíð gegnir miklu máli þegar maður er að reka fyrirtæki því að þá ráðast menn í fjárfestingar, í framkvæmdir, trú neytenda eykst og menn fara að spila sóknarleik að nýju.

Ástandið er nefnilega ekki jafnslæmt og menn héldu að það yrði. Við sjáum að gjaldþrot fyrirtækja eru ekki jafnrík og menn héldu. Það er ekki jafnmikið atvinnuleysi og menn spáðu. Erlendir kröfuhafar eru að koma inn í bankana og aðlögunarþörf ríkisins minnkar. Ferðaþjónustan blómstrar, sjávarútvegurinn stendur gríðarlega vel, það er aukin eftirspurn eftir innlendri framleiðslu, umhverfi sprotafyrirtækja er gott og svo mætti lengi telja.

Þess vegna segi ég: Alþingismenn, lítum okkur nær og hjálpum raunverulega til við endurreisn íslenskra fyrirtækja. Gleymum okkur heldur ekki í bölmóði, vegna þess kannski að bölmóðurinn hentar betur í þeim pólitísku skylmingum sem við erum í hér daglega, heldur minnumst hins: Við skulum hjálpa þeim atvinnurekendum sem eru núna að stýra fyrirtækjum sínum í mótvindi og hjálpa þeim að fara aftur í sóknarleik því að þeir þurfa miklu fremur á jákvæðum straumum frá alþingismönnum að halda en bölmóði endalaust. (Gripið fram í: Hvar er bölmóðurinn?)