138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunum. Hæstv. fjármálaráðherra segir að bankarnir séu betur til þess fallnir að taka á endurskipulagningu skulda fyrirtækjanna en aðrir og talar um að bankarnir hafi komið sér upp verklagsreglum.

Þetta er nokkuð í mótsögn við ástæðurnar fyrir því að við fórum út í að setja á stofn eignarhaldsfélag, Bankasýslu og annað því um líkt vegna þess að tilgangurinn með því var einmitt að samræma verkferla. Það er engin samræming núna í verkferlum bankanna, þeir eru mislangt á veg komnir í þessu og hafa mismunandi prinsipp að leiðarljósi, eins og við höfum séð af fréttum um hvernig mismunandi fyrirtæki fá mismunandi meðferð.

Eitt er algjörlega ljóst, vegna þess hvað raunveruleg endurskipulagning skulda fyrirtækjanna hefur dregist, hvað hefur dregist að gera upp það sem þarf að gera upp, höfum við, nákvæmlega eins og hv. þm. Magnús Orri Schram, upplifað það að hér er atvinnuleysi ekki orðið jafnmikið og ella hefði verið ef farið hefði verið í þessa endurskipulagningu.

Það er rétt að vekja athygli á einu, við þingmenn sameinuðumst um þetta eignarhaldsfélag, að rétt prinsipp væru komin þar inn við endurskipulagninguna. Síðan var Bankasýslan sett þar ofan á algjörlega á skjön þannig að ekki var hægt að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með. Þetta voru mikil mistök, (Forseti hringir.) þetta voru mistök sem Mats Josefsson mótmælti harðlega (Forseti hringir.) og þetta hefur leitt til þess að endurreisn fyrirtækjanna hefur gengið hægar en ella hefði getað orðið.