138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé einhver misskilningur að Bankasýslunni hafi verið mótmælt sem slíkri. Það hefur legið lengi fyrir að samkvæmt þeirri alþjóðlegu ráðgjöf sem við höfum stuðst við var bæði gert ráð fyrir því að stofna Bankasýslu eða einingu um eignarhald ríkisins (TÞH: Mats Josefsson sagði að …) sem og eignaumsýslufélagið. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því hér að ekki verður bæði sleppt og haldið. Niðurstaðan varð sú að færa eignarhald ríkisins í bönkum og fjármálafyrirtækjum armslengd frá hinu pólitíska valdi. Það var gert með stofnun Bankasýslunnar og hún sér alfarið um samskipti ríkisins sem eiganda við fjármálafyrirtæki. Bankastjórnir, stjórnir og stofnendur fjármálafyrirtækja eiga ekki í neinum beinum samskiptum við fjármálaráðuneytið eða fjármálaráðherra eftir þetta. Þau samskipti fara nú í gegnum Bankasýsluna. Þannig er um hnútana búið og það verður að vera annaðhvort eða, annaðhvort sleppa menn eða halda. Þessi leið var valin og núna er unnið samkvæmt henni.

Það er misskilningur hjá þm. Birki Jóni Jónssyni þegar hann talar um þrjá ríkisbanka, þeir eru tveir í augnablikinu og innan fárra daga skýrist hvort þeir verða nú nema einn þar sem ríkið á ráðandi hlut eða er afgerandi eignaraðili.

Varðandi Mats Josefsson, þann góða mann sem hér er enn nefndur til sögunnar, held ég að fjöðrin sé orðin að mörgum hænum ef uppspretta kenninga um að við ætlum að fara að losna við hann af því að hann hafi verið gagnrýninn á það sem ég sagði hér á dögunum. Þá sagði ég það eitt að mig minnti að ráðningarsamningur við hann væri til áramóta og mér væri ekki kunnugt um hvort ákvarðanir hefðu verið teknar um framhaldið, það var allt og sumt. (Gripið fram í: Já, já.) Þar með er stjórnarandstaðan með þá kenningu að það eigi að fara að reka hann af því að hann hafi verið gagnrýninn. Ég get sagt ykkur að þá hefðum við fyrir löngu losað okkur við hann því að Mats Josefsson hefur oft áður verið gagnrýninn. Það er gott af því að hann hefur verið aðhalds- og eftirrekstraraðili, er kappsfullur maður og hefur gjarnan viljað, eins og við öll auðvitað, að hlutirnir hefðu gengið hraðar fyrir sig.

Varðandi getu bankanna til að (Forseti hringir.) takast á við þessa fjárhagslegu endurskipulagningu vísaði ég þar eingöngu í niðurstöðu bresks sérfræðings sem gerði úttekt á því í fyrravor. Ég var ekki að tjá mig sjálfan eða lýsa skoðunum mínum sérstaklega (Forseti hringir.) í þeim efnum. (Gripið fram í.)