138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kynning á breyttu fyrirkomulagi í 10. bekk.

137. mál
[14:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Bara til upprifjunar þá var þetta talsvert til umræðu hér í þinginu þegar ný grunnskólalög voru samþykkt og þverpólitísk samstaða náðist um þá breytingu á kerfinu að í stað gömlu samræmdu prófanna, sem voru talin hafa miðstýrandi áhrif á allt skólastarf, kæmu samræmd könnunarpróf. Meðal annars var litið til Finnlands, ef ég man rétt, eftir fyrirmynd. Ég vil ítreka það að þetta þótti mér vera vænleg breyting. Hins vegar er eðlilegt að ákveðin ringulreið skapist þegar skipt er um kerfi því að fólk er kannski íhaldssamt í eðli sínu. Hins vegar vil ég segja að í kjölfar gildistöku nýju laganna um grunn- og framhaldsskóla voru þau kynnt mjög rækilega fyrir almenningi og öllum aðilum skólasamfélagsins, m.a. í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóla. Sérfræðingar ráðuneytisins hafa kynnt lögin fyrir kennurum og skólastjórnendum vítt og breitt um landið og á öllum þessum fundum var fjallað um breytingar á fyrirkomulagi samræmds námsmats í grunnskóla. Efnið sem tengist nýju lögunum og innleiðingu þeirra er einnig aðgengilegt á sérstöku vefsvæði sem útbúið var í því skyni að kynna lögin sem best.

Á síðasta skólaári var svo sent bréf til allra grunnskóla með upplýsingum um breytingar á samræmdum prófum í grunnskólum. Í kjölfarið stóð ráðuneytið fyrir fundi með skólastjórum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjallað var um breytt fyrirkomulag við innritun í framhaldsskóla. Einnig kynnti ráðuneytið nýtt fyrirkomulag við innritun fyrir öllum skólameisturum á samstarfsnefndarfundi framhaldsskóla.

Nýtt fyrirkomulag á samræmdu námsmati í 10. bekk var kynnt á sérstökum upplýsingavef ráðuneytisins um framhaldsskólanám á Íslandi sem ætlaður er nemendum og foreldrum þeirra. Á vefnum er aðgengilegt almennt upplýsingaefni um framhaldsskólanám, innritun og námsleiðir á nýjum tungumálum.

Námsmatsstofnun annast framkvæmd hinna nýju samræmdu könnunarprófa í grunnskólum og ný könnunarpróf í 10. bekk komu fyrst til framkvæmda nú í haust. Námsmatsstofnun sendi ítarleg kynningarbréf til nemenda í 10. bekk og foreldra þeirra um prófin, markmið þeirra, fyrirkomulag og undirbúning. Skólum var einnig sent ítarlegt kynningarefni um þessi nýju próf.

Þarna var í fyrsta lagi um nýtt fyrirkomulag að ræða, ný lög að taka gildi, sem auðvitað skapaði talsverða umræðu um samræmdu prófin, og á sama tíma var mjög stór hópur að koma úr grunnskóla inn í framhaldsskóla, einn stærsti hópur og eitt hæsta hlutfall sem hefur skráð sig í framhaldsskóla, um 96% árgangsins skráði sig í framhaldsskóla nú í haust, sem skapaði líka mikið álag á skólakerfið, á sama tíma og við eigum í efnahagsþrengingum og óvíst um bætur fyrir nemendaígildi og annað slíkt, þannig að þegar allt þetta kom saman skapaði það mikið álag á framhaldsskólana. Við höfum hins vegar skoðað þessi mál sérstaklega og sérstakur starfshópur sem var skipaður í ráðuneytinu lagði nýlega fram drög að skýrslu um reynsluna af innritun í framhaldsskóla sl. vor með tillögum um úrbætur. Þar er m.a. gert ráð fyrir að ráðuneytið gefi út sérstök viðmið um námsmat fyrir grunnskóla vegna lokaprófa í 10. bekk og þau verða gefin út á næstu vikum. Við ætlum enn fremur á næstunni að halda fund með skólastjórum grunnskóla þar sem fyrirkomulag innritunar í framhaldsskóla næsta vor verður kynnt.

Við teljum að breytingar á fyrirkomulagi samræmds námsmats í grunnskólum hafi verið rækilega kynntar fyrir öllum aðilum skólasamfélagsins og við munum halda þeirri kynningu áfram á næstu vikum og mánuðum. Að öðru leyti vil ég bara taka undir með hv. fyrirspyrjanda, ég er sannfærð um að þessi breyting — við eigum auðvitað eftir að læra af reynslunni, en ég hef trú á því hún eigi eftir að gefast vel. Ég hef líka trú á mikilvægi þess að við stöndum að öflugri upplýsingamiðlun um breytingarnar og hættum því ekki, því þetta tekur auðvitað ákveðinn tíma þegar fólk hefur vanist tilteknu kerfi. Ég lít því á það sem brýnt verkefni okkar að halda áfram að miðla upplýsingum um þessi efni.